Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Skrifað undir þjónustusamning Neytendasamtakanna og innanríkisráðuneytis

Jóhannes Gunnarsson og Ragnhildur Hjaltadóttir skrifuðu undir samninginn. - mynd
Fulltrúar innanríkisráðuneytis og Neytendasamtakanna skrifuðu í gær undir þjónustusamning sem gildir út árið 2017. Hliðstæðir samningar hafa verið gerðir síðustu árin og verður framlag ráðuneytisins til samtakanna alls 16,2 milljónir króna á þessum tíma.

Samningur Neytendasamtakanna og innanríkisráðuneytisins tekur til nokkurra verkþátta í starfsemi samtakanna. Verður fjárframlaginu varið til að standa straum af kostnaði við leiðbeiningarþjónustu og kvörtunarþjónustu samtakanna, kostnaði við úrskurðarnefndir og við samning um Evrópsku neytendaaðstoðina.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, skrifuðu undir samninginn. Var þetta meðal síðustu verkefna Jóhannesar sem formanns samtakanna en hann gefur ekki kost á sér til embættis formanns á aðalfundi síðar í mánuðinum. Hefur hann setið í stjórn samtakanna í áratugi og verið formaður um árabil.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira