Hoppa yfir valmynd
26. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um farþegaflutninga og farmflutninga á landi til umsagnar

Til umsagnar eru hjá innanríkisráðuneytinu drög að lagafrumvarpi um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um frumvarpið til 9. nóvember næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Frumvarpinu er ætlað að tryggja og/eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm Evrópugerða á sviði flutninga á landi. Markmið frumvarpsins er þannig að stuðla að því að íslenska ríkið uppfylli skyldur sínar samvkæmt EES-samningnum og taki þannig virkan þátt í að greiða fyrir farm- og farþegaflutningum innan innri markaðarins. Uppistaðan í frumvarpinu eru ákvæði núgildandi laga nr. 73/2001 um fólksflutninga og farmflutninga á landi með þeim breytingum og viðbótum sem nauðsynlegar eru til að ná þessu markmiði frumvarpsins. Efnisákvæði reglugerðanna eru með frumvarpinu tekin upp í lög að svo miklu leyti sem þau fela í sér aukin skilyrði eða íþyngjandi reglur. Annars staðar er bætt við reglugerðarheimildum til að heimila innleiðingu gerðanna.

Þær gerðir sem frumvarpinu er ætlað að tryggja lögmæta innleiðingu fyrir eru eftirfarandi:

  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1071/2009 um sameiginlegar reglur varðandi skilyrði sem uppfylla þarf til þess að mega starfa sem flutningsaðili á vegum.
  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1072/2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir framflutninga á vegum milli landa.
  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1073/2009 um sameiginlegar reglur um aðgang að mörkuðum fyrir flutninga með hópbifreiðum milli landa.
  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 181/2011 um réttindi farþega í hópbifreiðum.
  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1370/2007 um almenna farþegaflutninga á járnbrautum og á vegum.

Síðastnefnda gerðin hefur þegar verið innleidd en rétt þykir að gefa tilteknum ákvæðum hennar aukið vægi í lögum. Hinar fjórar gerðirnar voru teknar upp í EES-samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara þar sem ljóst var að tiltekin ákvæði þeirra yrðu ekki innleidd án lagabreytinga. Stjórnskipulegum fyrirvara hefur nú verið aflétt með þingsályktun og því mikilvægt að leiða lagabreytingar vegna innleiðingar til lykta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum