Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Matvælaráðuneytið

Brynja Laxdal ráðin verkefnastjóri Matvælalandsins Íslands

Brynja Laxdal
Brynja Laxdal

Brynja Laxdal hefur verið ráðin verkefnastjóri verkefnisins Matvælalandið Ísland. Brynja er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands. Brynja hefur undanfarin fjögur ár starfað sem markaðsstjóri Meet in Reykjavík, markaðsstofu. Brynja lauk áður BSc prófi í hjúkrunarfræði og hefur starfað á heilbrigðissviðinu bæði sem hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri meðal annars hjá Landlæknisembættinu.  

Ráðningin er gerð að undangengnu ítarlegu ráðningarferli. Capacent hafði umsjón með ráðningarferlinu í samstarfi við formlega hæfnisnefnd, en yfir sextíu umsóknir bárust um starfið.

Brynja hefur mikinn áhuga á matvælageiranum, ferðast mikið um landið og hefur mikla reynslu af verkefnastjórnun, markaðssetningu og kynningarmálum bæði hér heima og erlendis. Brynja mun hafa starfsaðstöðu í Húsi Sjávarklasans ásamt því að ferðast um landið og vinna að verkefnum Matvælalandsins Íslands. 

Staða verkefnisstjóra Matvælalandsins Íslands, fimm ára átaksverkefnis,  er nýtt starf sem rekið er í umboði verkefnisstjórnar á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Markmið verkefnisins er að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla. Tilgangur verkefnisins er að vinna að aukinni verðmætasköpun í landinu og fjölga störfum með því að nýta tækifæri sem til staðar eru í íslenskri matvælaframleiðslu, veitingaþjónustu og annarri tengdri þjónustustarfsemi. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum