Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Matvælaráðuneytið

Tillögur varðandi bætingu á strandveiðikerfinu

Strandveiðibátur

Að mati starfshóps á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins ríkir ágæt sátt um þann grunn sem að strandveiðikerfið byggir á. Samtal var haft við helstu hagsmunaaðila og var þar farið yfir kosti og galla á kerfinu og reyndist almennt ekki mikill vilji til grundvallarbreytinga.  Engu að síður þurfi að taka ákveðin atriði til skoðunar, s.s. hvernig hámarka megi aflaverðmæti,  gera refsiákvæði þyngri og bæta öryggismál. 

Almenn sátt var um að breyta þyrfti eftirfarandi atriðum:

  • Að umgjörð um fyrirkomulag veiðanna liggi fyrir tímanlega, eigi síðar en mánuði fyrir upphaf veiða. Gagnrýnt var að undanfarin ár hafi umgjörðin komið of seint fram.
  • Að kerfið stuðli að því að hámarka verðmæti. Vinna þarf með sjómönnum að enn betri umgengni – en vel að merkja, hún hefur batnað mjög á síðustu árum! Liður í þessu er t.d. betri kæling hvoru tveggja um borð í bátunum sem og á fiskmörkuðum. .
  • Að refsiákvæði í kerfinu verði hert þannig að bátar komi einungis með leyfilegan hámarksafla í land en nokkuð hefur borið á að strandveiðisjómenn fari umfram heimilan afla ítrekað. Einnig er talið rétt að herða viðurlög við brottkasti í kerfinu.
  • Að gengið verði tryggilega frá því við eigendaskipti að skipt sé um nafn í AIS tæki. Öryggismál sjómanna hafa lagast mjög á seinustu árum en enn má gera betur.
  • Að herða ákvæði um eigendur, svo komið verði í veg fyrir að útgerð geti gert út marga báta á strandveiðar enda kerfið ekki hugsað til þess.

Hópurinn vill jafnframt benda á það að skömmu eftir að strandveiðar hófust var Háskólasetrinu á Ísafirði falið að framkvæma úttekt á áhrifum þeirra. Miklum upplýsingum var safnað við gerð úttektarinnar sem nýttist stjórnvöldum mjög vel í framhaldinu. Hópurinn telur mikilvægt að meta nú á ný áhrif strandveiðanna, bæði hagræn og samfélagsleg áhrif, þannig að hægt sé að marka upplýsta stefnu til framtíðar.

Hluti af tillögunum þarfnast lagabreytinga og verður því ekki unnt að framkvæma að sinni en hluta er hægt að framkvæma með reglugerðum og öðrum leiðum og verður unnið að því í framhaldinu.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum