Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þorsteinn Víglundsson nýr ráðherra félags- og jafnréttismála

Þorsteinn Víglundsson og Eygló Harðardóttir - mynd

Þorsteinn Víglundsson tók í dag við ráðherraembætti af Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félags- og húsnæðismálaráðherra í velferðarráðuneytinu. Þorsteinn er félags- og jafnréttismálaráðherra í nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Eygló Harðardóttir óskaði Þorsteini velfarnaðar í starfi við mikilvæg og vandasöm verkefni.

Þorsteinn er 5. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og tók sæti á Alþingi í kjölfar síðustu þingkosninga fyrir Viðreisn. Ráðherrar velferðarráðuneytisins eru tveir; félags- og jafnréttismálaráðherra og heilbrigðisráðherra. Verkefni félags- og jafnréttismálaráðherra eru á sviði félags- og fjölskyldumála, almannatrygginga, húsnæðismála, vinnumála og jafnréttismála. Heilbrigðisráðherra fer með verkefni sem snúa að heilbrigðisþjónustu, lyfjamálum, sjúkratryggingum, lýðheilsu og forvörnum.

Jafnréttismál sett í forgang

Þorsteinn segir að í embætti muni hann setja jafnréttismál í forgang, enda sé það mikilvæg forsenda fyrir réttlátu samfélagi. Jafnrétti á vinnumarkaði og launajafnrétti kynja vegi þar þungt og sú áhersla komi glöggt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Framundan eru stór verkefni á mikilvægum málefnasviðum sem ég hlakka til að fást við og gagnvart mörgum þeirra bý ég að ágætri reynslu úr fyrri störfum mínum. Ég vil nefna sérstaklega innleiðingu starfsgetumats, aukna áherslu á starfsendurhæfingu, úrbætur í málefnum öryrkja og fatlaðs fólks, sveigjanleg starfslok, hækkað frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og margt fleira mætti telja.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum