Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2017 Matvælaráðuneytið

Reglur um lífræna vottun samræmdar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að íslensk stjórnvöld hverfi frá aðlögunarkröfum vegna upptöku gildandi reglna ESB um lífræna ræktun. Sömu reglur munu því gilda um framleiðslu, vottun og merkingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og í Evrópu. Upptaka reglnanna mun auðvelda útflutning lífrænnar íslenskrar framleiðslu til Evrópuríkja, auk þess sem íslenskir neytendur munu njóta góðs af skilvirkara eftirliti.

Ísland og Noregur hafa um árabil unnið að upptöku gildandi reglna Evrópusambandsins um lífræna ræktun, sem settar voru árið 2007. Aðlögunarkröfur voru settar fram af báðum ríkjum. Kröfur Íslands voru fimm talsins og sneru að merkingum, notkun fiskimjöls við fóðrun jórturdýra, þéttleika í bleikjueldi og stærð hólfa og notkun grindargólfa í fjárhúsum. Hér á landi er í gildi reglugerð um lífræna vottun og framleiðslu frá árinu 2002, sem innleiðir eldri reglur ESB frá árinu 1991. Því hefur útflutningur á lífrænt vottuðum afurðum verið erfiður undanfarin ár og óvíst er hve lengi íslensk vottun verður yfir höfuð viðurkennd innan ESB. 

Talið er útséð um að landbúnaðarskrifstofa Evrópusambandsins muni fallast á aðlögunarkröfurnar og féllu Norðmenn frá sínum kröfum síðastliðið sumar. Það er því talið þjóna hagsmunum Íslands að fylgja fordæmi Norðmanna.

Gildandi reglur um lífræna framleiðslu hafa ekki verið uppfærðar í sex ár og má því gera ráð fyrir að upptaka samræmdra reglna komi til með að bæta eftirlit með innflutningi á lífrænt ræktuðum vörum.

Ætla má að reglurnar hafi áhrif á um 30 framleiðendur lífrænna afurða hér á landi. Þær munu hins vegar ekki hafa áhrif á framleiðendur hefðbundinna afurða.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum