Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Sigríður Á. Andersen tók þátt í fundi dómsmálaráðherra Evrópuríkja

Sigríður Á. Andersen sótti fund dómsmálaráðherra Evrópuríkja og hér er hún með starfsbróður frá Möltu Carmelo Abela. - mynd

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sótti óformlegan fund dóms- og innanríkisráðherra í Valetta á Möltu í gær, 26. janúar, en þar voru málefni tengd hælisleitendum og Schengen ríkjasamstarfinu til umræðu.

Ráðherra greindi þar frá áherslum nýrrar ríkisstjórnar Íslands í hælismálum ásamt efasemdum Íslands gagnvart fyrirhuguðum breytingum á Dyflinnarreglugerðinni, þ.e. aukinni samábyrgð vegna afgreiðslu hælisumsókna og áframflutningi hælisleitenda frá þeim ríkjum Evrópu sem taka á móti flestum hælisumsóknum til ríkja sem ekki sæta sambærilegri ásókn hælisleitenda. Taldi ráðherra að slíkar breytingar fælu í sér grundvallarbreytingu á ríkjasamstarfinu. Eftir umræður var ljóst að ríkin greinir enn á um hvaða leiðir komi best til móts við aukið flæði hælisleitenda til Evrópu.

Þá voru öryggismál á Schengen-svæðinu einnig til umræðu á fundinum, nánar tiltekið samhæfing upplýsingakerfa, aukin upplýsingaskipti í tengslum við ytri landamæri og almennt öryggi á svæðinu. Tillögur um samhæfingu upplýsingakerfa hlutu almennt stuðning ráðherranna.

Við lok fundar greindu samtökin Missing children Europe frá þeim mikla fjölda barna sem týnast ár hvert á flótta frá heimalandi sínu til Evrópu. Um 96.400 börn, undir átján ára aldri og án forsjáraðila, sóttu um alþjóðlega vernd hjá Evrópusambandsríkjum árið 2015 en það er um tíföldun frá árinu 2010. Einn af hverjum fjórum sem sóttu um alþjóðlega vernd árið 2016 hjá ríkjum Evrópusambandsins voru börn og meira en helmingur þeirra er undir fjórtán ára aldri. Þá eru allt að 10.000 börn á flótta án forsjáraðila talin hafa horfið í Evrópu árið 2015 samkvæmt upplýsingum frá Europol. Lögðu samtökin áherslu á að haldið væri betur utan um skráningu barna sem leita hælis í Evrópu til afla upplýsinga um raunverulegt umfang vandans. Brýn þörf væri einnig á alhliða barnaverndarúrræði og stefnumörkun frá Evrópusambandinu um vernd barna á flótta.

Hér að neðan er Sigríður Á. Andersen með forstjóra Europol, Rob Wainwright.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum