Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingmál heilbrigðisráðherra á 146. löggjafarþingi

Yfirlit yfir þau mál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á 146. löggjafarþingi hefur verið lagt fram samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Eftirtalin eru þingmál heilbrigðisráðherra með upplýsingum um efni hvers þeirra og áætlun um hvenær þau verða lögð fram:

  1. Frumvarp til lyfjalaga.
    Núgildandi lyfjalög tóku gildi 1. júlí 1994 og hefur þeim verið breytt alls 43 sinnum. Þau hafa hins vegar aldrei sætt heildarendurskoðun frá gildistöku þeirra. Frumvarpið felur í sér heildarendur­skoðun núgildandi laga með tilliti til stefnumörkunar og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópu­löggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Frumvarpið var lagt fram á 145. lög­gjafarþingi en náði ekki fram að ganga og verður endurskoðað frumvarp lagt fram á 146. lög­gjafarþingi. (Mars)
  2. Frumvarp til laga um misnotkun vefjaaukandi efna og stera.
    Um ný lög er að ræða en nauðsynlegt er að leggja fram frumvarp sem spornar við misnotkun á vefjaaukandi efnum og sterum. Engin lög eru í gildi sem taka á misnotkun vefjaaukandi efna og stera, en óskað hefur verið eftir af ýmsum aðilum að lögfestar verði reglur á þessu sviði. Höfð verður hliðsjón af sambærilegri danskri löggjöf. Regluverkinu er m.a. ætlað að taka með skýrum hætti á hvers kyns misnotkun, framleiðslu, innflutningi og dreifingu á þessum efnum. (Mars)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir (rafsígarettur, EES-reglur).
    Með lagabreytingunni verður settur heildstæður rammi um sölu, neyslu og annað tengt raf­sígarettum. Þá verður lagabreytingin til þess að innleiða að hluta (sem snýr að rafsígarettum) til­skipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslu­fyrir­mælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. (Mars)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000.
    Í frumvarpinu er aðallega lagt til að sjúkratryggingastofnunin hafi lokið afgreiðslu bótamála áður en slík mál eru borin undir dómstóla, að heimildir sjúkratryggingastofnunarinnar við gagnaöflun verði auknar og ákvæði um mat stofnunarinnar á umfangi líkamstjóns gert skýrara. (Mars)
  5. Þingsályktunartillaga – Lyfjastefna til ársins 2021.
    Þingsályktunartillaga um lyfjastefnu, sem byggist á lyfjastefnu til ársins 2020, var lögð fram á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Stefnan byggist á grundvelli eldri stefnu í mála­flokknum, áherslum heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum, stefnu grannþjóða á þessu sviði og þróun lyfjamála á liðnum árum. Endurskoðuð tillaga verður lögð fram á 146. löggjafarþingi. (Mars)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum