Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingmál félags- og jafnréttismálaráðherra á 146. löggjafarþingi

Yfirlit yfir þau mál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á 146. löggjafarþingi hefur verið lagt fram samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Eftirtalin eru þingmál félags- og jafnréttismálaráðherra með upplýsingum um efni hvers þeirra og áætlun um hvenær þau verða lögð fram.

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun).
    Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um skyldu fyrirtækja og stofnana, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, að undirgangast jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. (Mars)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breyt­ingum (hlutverk Íbúðalánasjóðs, stefnumörkun og áætlanagerð).
    Í frumvarpinu er að finna breytingar á hlutverki sjóðsins í samræmi við ný lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Lögð eru til nýmæli um stefnumótun í húsnæðismálum og skyldur sveitar­félaga í húsnæðismálum skýrðar. Þá eru lagðar til breytingar á útlánaheimildum sjóðsins. Endur­flutt að hluta. (Mars)
  3. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna (heildarlög).
    Frumvarpið kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem félagslega vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB (um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna) sem varðar ekki vinnumarkaðinn. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna sem og að koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga vegna fyrrnefndra þátta. Þá er frum­varpinu jafnframt ætlað að vera liður í því að koma í veg fyrir að skoðanir um mismunandi gildi kynþátta festi hér rætur. Innleiðing. (Mars)
  4. Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir (heildarlög).
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, m.a. með það að markmiði að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. (Apríl)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innleiðingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ítarlegri ákvæði um stjórnsýslu og eftirlit og ákvæði um skyldur í húsnæðismálum. (Apríl)
  6. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
    Í því skyni að tryggja að starfsfólk hljóti jafna meðferð innan sama vinnustaðar án tillits til kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta nema málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði standi til annars er mikilvægt að frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði verði lagt fram á Alþingi. Ákvæði frumvarpsins munu taka mið af efni tilskipunar ráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi sem og þeim hluta tilskipunar ráðsins 2000/43/EB um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna, sem varðar vinnumarkaðinn. (Febrúar).
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og fleiri lögum.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og er breytingunum meðal annars ætlað að innleiða tilskipun 2014/67/ESB um framfylgd eldri tilskipunar um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Þá er gert ráð fyrir að samhliða verði í frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, meðal annars í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, meðal annars í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. (Mars).
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.
    Frumvarpið, sem er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, kveður á um breytingar sem lúta að starfsendurhæfingu og hvernig megi stuðla að aukinni atvinnuþátttöku þeirra sem búa við skerta starfsgetu. Einnig er lagt til að tekið verði upp starfsgetumat þar sem metin verði starfsgeta fólks í stað læknisfræðilegs örorkumats. Samhliða því er gert ráð fyrir að tekið verði upp nýtt og einfaldara greiðslukerfi vegna endurhæfingarbóta og örorkulífeyris þar sem bótaflokkar verða sameinaðir og allar tekjur hafa sama vægi við útreikning bóta. Þá verður samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins bætt og stuðningur aukinn við þann hóp öryrkja sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Einnig mun í frumvarpinu verða kveðið á um hækkun lífeyristökualdurs í áföngum úr 67 árum í 70 ár og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. (Mars)
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
    Frumvarp þetta er liður í að koma í framkvæmd þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka hámarksfjárhæðir fæðingarorlofsins í öruggum skrefum á næstu fjórum árum. Þykir mikilvægt að það sé gert í einu lagi í frumvarpi þannig að fyrirsjáanlegt verði hvernig þær hækkanir eru áætlaðar í áföngum. (Mars)
  10. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu.
    Í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2020 er lögð áhersla á börn og barnafjölskyldur. Byggt er m.a. á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði fjölskyldu- og mannréttinda. Endurflutt að hluta. (Mars)
  11. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks 2017–2021.
    Við mótun tillögunnar er m.a. horft til markmiða þeirrar stefnu í málefnum fatlaðs fólks sem kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lögð er áhersla á algilda hönnun og lausnir sem mikilvæga forsendu þess að skapa öllum einstaklingum aðstæður til að njóta sömu tækifæra. (Mars)
  12. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um barnavernd.
    Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal ráðherra leggja fram tillögu til þings­ályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára í senn. Markmið tillögunnar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. (Mars)
  13. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.
    Í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Byggt er á samstarfsyfirlýsingu fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. (Mars)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum