Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2017 Matvælaráðuneytið

Til umsagnar: Reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða

Reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða gildir um allar sláturafurðir sem fluttar eru á erlendan markað eða til sölu innanlands og skal flokka og merkja sláturafurðir eftir tegundum og gæðum samkvæmt reglugerðinni. Í reglugerðinni er fjallað um frágang, viktun og kjötmat ásamt því hvernig sláturafurðir skuli merktar. Þá er einnig að finna í reglugerðinni ákvæði um þjálfun, störf og skyldur kjötmasmanna. Í viðaukum reglugerðarinnar er að finna yfirlit yfir þá flokka og viðmið sem tekið skal mið af við kjötmatið.

Drög reglugerðarinnar byggja að miklu leyti á núgildandi reglugerð nr. 882/2010 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða sem tók gildi 1. nóvember 2010. Ástæða þess að hafin var vinna við að endurskoða reglugerðina er upptaka EUROP-matskerfis sem er holda- og fitumatskerfi sláturafurða. Upptaka matsins hafði í för með sér verulegar breytingar á ákvæðum núgildandi reglugerðar nr. 885/2010 og lagði því Matvælastofnun til við ráðuneytið að sett yrði ný heildarreglugerð.

Drög reglugerðarinnar voru samin af Matvælastofnun en einnig komu Matís, Landssamband kúabænda, Landssamtök sláturleyfishafa og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins að lýsingu á matsflokkum varðandi nautgripamat.

Athugasemdir og ábendingar um reglugerðina óskast sendar á netfangið [email protected] merkt "Reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu." Frestur til að skila umsögnum er til 8. mars 2017.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum