Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla um aðlögun flóttafólks og innflytjenda kynnt

Skýrsla um aðlögun flóttafólks og innflytjenda var kynnt í dag. - mynd

Kynntar voru niðurstöður skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um gæði aðlögunar flóttafólks og innflytjenda að íslensku samfélagi á fundi í Reykjavík dag en skýrslan var unnin fyrir innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneytið. Þar voru meðal annars kynntir möguleikar á umbótum á málefnum útlendinga og innflytjenda með það í huga að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar.

Við gerð skýrslunnar var jafnframt leitað til flóttafólks og innflytjenda til að kanna hvernig stuðning og  þjónustu fólkið fékk við komuna til landsins. Svarhlutfall var lágt en niðurstöðurnar báru með sér að þeir sem komu til landsins sem kvótaflóttamenn fengju ítarlegri stuðning en þeir sem hingað leituðu á eigin vegum með umsókn um alþjóðlega vernd. Þá var einnig rætt við sérfræðinga á sviði flóttafólks og innfytjenda í stjórnkerfinu og kannað hvaða áskoranir og möguleikar væru fyrir hendi í málaflokknum ásamt því að skoða hvernig verklagið væri í nágrannalöndum okkar. 

Farið var í þessa heildstæðu greiningu m.a. á grundvelli skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2015 þar sem bent er á ýmis atriði sem endurskoða þarf til að bæta lagaumhverfi, stjórnsýslu og skipulag varðandi málefni flóttafólks og innflytjenda hérlendis.

Á fundinum kynntu Bylgja Árnadóttir og Ásdís A. Arnaldsdóttir, verkefnisstjórnar Félagsvísindastofnunar, helstu niðurstöður skoðanakönnunar meðal flóttafólks á Íslandi og rýnirannsókn og Auður Birna Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Alþjóðamálastofnun, kynnti niðurstöður úr rannsókn á umbótatækifærum í þjónustu við flóttafólk frá sjónarhóli sérfræðinga sveitarfélaga og Rauða krossins. Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði og framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun, kynntu svo tillögur að umbótum til að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, setti  fundinn og Laufey Rún Ketilsdóttir, aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, flutti svo lokaorðin fyrir hennar hönd.

„Það er fyrirséð að við þurfum að halda vel utan um innflytjenda- og útlendingamálin á næstu árum og vanda til verka. Eins og við var að búast kallar þessi skýrsla á frekari vinnu í dómsmálaráðuneyti jafnt sem velferðarráðuneyti og fleirum sem að þessum málaflokki koma og við hlökkum til að taka virkan þátt í því samstarfi,“ sagði Laufey Rún að loknum framsögum á fundinum og þakkaði jafnframt skýrsluhöfundum fyrir hönd dómsmálaráðherra og Háskóla Íslands fyrir vandaða rannsókn og þarft innlegg í málaflokk sem væri í stöðugri þróun. Þá vakti hún sérstaka athygli á því að í skýrslunni kæmi fram almennt jákvætt viðhorf innflytjenda og flóttafólks til Útlendingastofnunar og lögreglu sem væri til marks um það góða starf sem þar væri unnið.

Vinna hafin við að tryggja markmið ríkisstjórnar

,,Það er vilji ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra að innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og að virkni nýrra útlendingalaga sé tryggð gagnvart viðeigandi stofnunum og þjónustu. Mannúðarsjónarmið skulu jafnframt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og afgreiðslutími styttur eins og hægt er án þess að það bitni á vandaðri málsmeðferð. Dómsmálaráðherra hefur þegar stigið skref til að tryggja markmið nýrrar ríkisstjórnar og stemma stigu við tilhæfulausum umsóknum um hæli frá öruggum ríkjum. Til að Íslendingar geti aðstoðað þá sem eru í neyð verður að tryggja að ekki sé gengið á þá velvild án ástæðu. Á síðasta ári sóttu alls 1.132 einstaklingar um hæli hér á landi sem er þreföldun frá árinu áður en langflestir þeirra komu frá öruggum ríkjum,“ sagði Laufey Rún.

Niðurstöður skýrslunnar kæmu að gagni við áframhaldandi vinnu á þessu sviði ásamt frummatsskýrslu varðandi umbótatækifæri í tengslum við stofnanauppbyggingu og verkaskiptingu á sviði útlendingamála sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið í ágúst 2016.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn