Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsótti Rauða krossinn

Forráðamenn og nokkrir starfsmenn Rauða krossins tóku á móti ráðherra og fylgdarliði. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti í gær Rauða krossinn á Íslandi í aðalstöðvar samtakanna við Efstaleiti í Reykjavík. Sveinn Kristinsson formaður og Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri tóku á móti ráðherra og fylgdarliði og kynntu henni starfsemina.

Ráðherra og fylgdarlið fóru um húsið og heilsuðu uppá starfsmenn og síðan fræddu forráðamenn samtakanna og nokkrir starfsmenn gestina um helstu þættina í starfinu sem koma inn á svið ráðuneytisins.

Aðal samstarfsverkefnið er þjónusta við hælisleitendur og er í gildi samningur ráðuneytisins við Rauða krossinn um margháttaða aðstoð við þá sem leita til Íslands eftir vernd. Alls sinnir 21 starfsmaður þessum verkefnum sem hafa vaxið mjög undanfarin misseri í hlutfalli við fjölgun umsækjenda. Verkefnin snúast einkum um lögfræðilega aðstoð en einnig ýmiss konar félagslega þjónustu.

Báðir aðilar lýstu ánægju með verkefnið og voru sammála um að þetta væri brýn þjónusta til viðbótar við þjónustu Útlendingastofnunar og sveitarfélaga sem hún hefur samið við um móttöku og útvegun húsnæðis fyrir hælisleitendur. Fram kom á fundinum að samstarf allra þessara aðila gengi vel enda væri náið samráð og regluleg fundahöld um framkvæmdina.

Frá heimsókn dómsmálaráðherra til Rauða krossins. Frá vinstri: Atli Viðar Thorstensen, Kristín S. Hjálmtýsdóttir og Sveinn Kristinsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn