Hoppa yfir valmynd
20. mars 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra heimsótti Sjúkrahúsið á Akureyri

Frá heimsókn heilbrigðisráðherra á Sjúkrahúsið á Akureyri - mynd

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Sjúkrahúsið á Akureyri, kynnti sér starfsemina og ræddi við stjórnendur og aðra starfsmenn um áherslur og nýjungar í rekstrinum og sýn stjórnenda til framtíðar.

Með ráðherra í för voru Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og Sigrún Gunnarsdóttir aðstoðarmaður hans og tóku á móti þeim Bjarni Jónasson forstjóri sjúkrahússins ásamt framkvæmdastjórn þess.

Bjarni Jónasson sagði það ánægjulegt að fá tækifæri til að kynna fyrir ráðherra og fylgdarliði það fjölbreytta og kraftmikla starf sem fram fer á sjúkrahúsinu. Eins væri kærkomið að geta komið á framfæri ábendingum um þá þróun sem fara þurfi fram á komandi árum til að þjónusta sjúkrahússins við íbúa á svæðinu geti þróast áfram til samræmis við þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til hennar.

Í heimsókninni var ráðherra m.a. sýnd aðstaðan á almennu göngudeild sjúkrahússins, bráðamóttöku, myndgreiningu, legudeild geðdeildar, lyflækningadeild og skurðlækningadeild. Á göngudeildinni er m.a. veitt blóðmeina- og krabbameinsmeðferð og ýmis stoðmeðferð tengd krabbameinum en þar fer einnig fram lyfjagjöf vegna annarra sjúkdóma s.s. gigtarsjúkdóma og sjúkdóma í meltingarvegi. Lengst af var lyfjameðferð við krabbameinum aðeins veitt á Landspítala, en nú fer hún fram á dagdeild SAk og þar fer einnig fram öll blöndun krabbameinslyfja til meðferðar. Krabbameinssérfræðingar frá Landspítalanum bera ábyrgð á þessari þjónustu. Inga Margrét Skúladóttir forstöðuhjúkrunarfræðingur kynnti starfsemi göngudeildarinnar.

Sjúkrahús með alþjóðlega gæðavottun

Sjúkrahúsið á Akureyri hlaut í desember 2015 alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni og fyrsta heilbrigðisstofnunin á Íslandi til að hljóta slíka vottun. Drifkrafturinn að baki ákvörðun sjúkrahússins um að ráðast í vottunarferlið var að auka gæði starfseminnar. Vottunin og vinnan sem henni tengist skilar markvissari vinnuferlum, auknu öryggi sjúklinga og starfsmanna og tryggir stöðugar umbætur sem munu leiða til skilvirkari þjónustu, líkt og segir m.a. í umfjöllun um vottunina á vef sjúkrahússins.

Í heimsókn heilbrigðisráðherra  var einnig rætt um þau tækifæri sem felast í uppbyggingu og eflingu fjarheilbriðgðisþjónustu. Óttarr sagði mikilvægt að sinna þeim þætti vel og sagðist binda vonir við árangur af tilraunaverkefni um uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu sem er samvinnuverkefni Embættis landlæknis, Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum