Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Frumvarp að nýjum heildarlögum um þjónustu við fatlað fólk

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp að nýjum heildarlögum sem fjalla um þjónustu við fatlað fólks með þörf fyrir mikinn stuðning. Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu sem hefur það meginmarkmið að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða leggur ráðherra fram frumvarp til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem skipaður var árið 2014 og hafði það hlutverk að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Niðurstaðan varð sú að leggja til nýja löggjöf um málefni fatlaðs fólks sem lýtur að þjónustu við þá sem eru fatlaðir og með meiri þörf fyrir þjónustu og stuðning en unnt er að mæta samkvæmt almennum lögum um félagsþjónustu. Aftur á móti er gert ráð fyrir að um almenna þjónustu við fatlað fólk gildi ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og er frumvarp til breytinga á þeim lagt fram með það fyrirkomulag að leiðarljósi. Í því frumvarpi er almennri stoðþjónustu gert hærra undir höfði en áður og lagt til að mörkin liggi við um það bil 10 – 15 klukkustunda þjónustuþörf á viku, en að þjónustuþörf umfram það verði mætt á grundvelli frumvarps um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, verði það að lögum.

Helstu efnisþættir sem lúta að þjónustu við fatlað fólk samkvæmt frumvarpinu eru eftirtaldir:

  • Kveðið er á um lögfestingu notendastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA) og fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem sveitarfélögin skulu innleiða á grundvelli aukinna framlaga frá ríkinu á árunum 2017 – 2022.

  • Stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra eru styrktar þannig að hann getur nú skorið úr um ágreiningi um hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð.

  • Skerpt er á skilum milli laga um málefni aldraðra og laga sem gilda um þjónustu við fatlað fólk þegar um er að ræða fólk sem er 67 ára og eldra.

  • Kveðið er á um að ráðherra skuli veita starfsleyfi einkaaðilum sem hafa það að meginmarkmiði að veita fötluðu fólki þjónustu.

  • Ýmis nýmæli eru í frumvarpinu varðandi þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra. Má þar m.a. nefna að sveitarfélög skuli bjóða fötluðum börnum frístundaþjónustu eftir að skóladegi lýkur og eftir atvikum áður dagleg kennsla hefst, og að auki á öðrum dögum en lögbundnum frídögum þegar skólar starfa ekki. Einnig eru í frumvarpinu nýmæli sem lúta að bættri þjónu við börn með samþættar geð- og þroskaraskanir.

  • Ákvæðum um atvinnumál er breytt til samræmis við þá stefnu að um atvinnumál fatlaðs fólks skuli fara meða sama hætti og um atvinnumál almennt.

  • Kveðið er á um samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og lögð til lagaskylda um reglubundna gerð framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks.

Gert er ráð fyrir að kostnaðarauki vegna frumvarpsins nemi um 970 milljónum króna samtals sem raungerist á tímabilinu 2018 – 2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira