Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mikilvægt að eiga samstarf um leitar- og björgunarstarf á norðurslóðum

Frá vinstri: Frigg Jörgensen frá AECO, Auðunn F. Kristinsson og Georg Kr. Lárusson frá Landhelgisgæslunni og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. - mynd

Frá ráðstefnu útgerða og viðbragðsaðila um siglingar farþegaskipa í norðurhöfum

Landhelgisgæslan og Samtök skemmtiferðaskipa sem gera út á norðurslóðum standa nú saman að ráðstefnu og æfingu í Reykjavík um siglingar og leit og björgun í norðurhöfum. Markmiðið er að efla samstarf og traust björgunaraðila og útgerða og sitja ráðstefnuna fulltrúar þessara aðila.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnunnar sem haldin er nú í annað sinn og stendur til morguns. Þátttakendur eru um 70. Ráðherra sagði í upphafi ávarps síns að í ljósi aukinnar skipaumferðar við Ísland og á norðurslóðum væri samstarf útgerðanna og björgunaraðila mjög mikilvægt.

Ráðherra minntist á Samtök útgerða farþegaskipa á Norðurslóðum, AECO, sem hún sagði hvetja til fagmennsku, samstarfs og fræðslu um norðurslóðir, hina einstöku náttúru þeirra, menningu og mannlíf. „Að umgangast náttúruna af virðingu og varúð er nauðsynlegt markmið þegar norðurslóðir eru annars vegar en svæðið er viðkvæmt fyrir hvers kyns náttúrulegum sveiflum og það er ekki síður viðkvæmt fyrir ágangi okkar mannanna,“ sagði ráðherra. Hún sagði brýnt að þessir aðilar ynnu saman, hefðu yfirsýn yfir mögulegar uppákomur og gætu haft stjórn á þeim og þyrftu að vera þjálfaðir og búnir undir mögulegar sviðsmyndir þar sem reyndi á leitar- og björgunaraðila.

Í lok ávarps síns sagði ráðherra meðal annars: „Siglingar um norðurslóðir geta verið erfiðar og þær krefjast reynslu og þekkingar. Þekkja þarf hversu óvægin náttúran getur verið, að veðurskilyrði geta breyst á örskotsstundu og áhættuna sem því fylgir. Norðurslóðir ná yfir erfitt úthaf og því langt í næstu strönd eða byggð. Af þeim sökum eykst þörfin á samstarfi aðila – sem oft byrjar eða styrkist á ráðstefnu sem þessari þar sem bera má saman bækurnar, greina áskoranir og það sem vel gengur, auka traust farþega og útgerða á viðbragðskerfinu.“

Á ráðstefnunni verður rætt um hinar ýmsu hliðar við leitar- og björgunarverkefni, hver geta hinna ýmsu björguaraðila er, hvernig á að yfirgefa stórt farþegarskip á köldum sjávarslóðum og farið yfir reynslu af atburðum sem upp hafa komið á þessum slóðum.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum