Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fræðslufundur ráðgjafahóps umboðsmanns barna

Ráðgjafahópur ungmenna ásamt ráðherrunum - mynd

Fulltrúar úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna heimsóttu velferðarráðuneytið í dag og fræddu ráðherrana og starfsfólk ráðuneytisins um efni Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ræddu vítt og breytt um stöðu barna í íslensku samfélagi.

Ráðgjafahópnum sem var upphaflega komið á laggirnar af hálfu umboðsmanns árið 2009. Hlutverk umboðsmanns barna er að vinna að bættum hag barna og unglinga, gæta þess að tekið sé tillit til réttinda þeirra, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins. Til að sinna þessu hlutverki er mikilvægt að hlusta á börn og heyra sjónarmið þeirra og í því ljósi setti umboðsmaður ráðgjahópinn á fót á sínum tíma.

Inga Huld og Lilja Hrönn önnuðust fræðsluna í velferðarráðuneytinu í dag, þótt með í för væru fleiri fulltrúar úr ráðgjafahópnum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd af fulltrúunum ásamt ráðherrum heilbrigðismála og félags- og jafnréttismálaráðherra. Í erindinu ræddu þær meðal annars um grundvallarreglurnar fjórar um; jafnræði og bann við mismunun, að hafa skuli það sem barninu er fyrir bestu að leiðarljósi, um rétt hvers barns til að lifa og þroskast og rétt barns til að láta í ljós skoðanir sínar og jafnframt um skylduna til þess að taka réttmætt tillit til þeirra.

Fyrirlesarar gerðu meðal annars að umræðuefni hvernig fullorðið fólk telji sig gjarna vita hvað börnum sé fyrir bestu án þess að spyrja börnin sjálf álits eða hafa þau með í ráðum. Mikilvægt væri að tala við börn og ungmenni sem jafningja, hlusta, sýna almenna kurteisi eins og að grípa ekki fram í fyrir þeim í samræðum og taka ekki niður til þeirra, hvorki við þau né um þau.

Til að bæta aðstæður barna er þátttaka þeirra sjálfra mikilvæg, enda eru börn sjálf sérfræðingar í eigin lífi og því mikilvægt að nýta einstaka sýn þeirra og þekkingu sem þau búa yfir, var meðal þess sem fram kom í erindi Ingu Huldar og Lilju Hrannar: Þátttaka barna eykur skilning fullorðinna á lífi og reynslu barna – og þátttaka barna er þeim mikilvæg svo að þau nái að þroskast sem ábyrgir borgarar.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum