Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2017 Dómsmálaráðuneytið

Embætti ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytis auglýst

Gefnir hafa verið út þrír forsetaúrskurðir um Stjórnarráð Íslands sem taka eiga gildi 1. maí næstkomandi. Sú breyting verður á skiptingu ráðuneyta að nýtt dómsmálaráðuneyti og nýtt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti taka til starfa 1. maí og er það í samræmi við þingsályktun Alþingis sem samþykkt var 22. mars síðastliðinn.

Jafnframt hefur verið auglýst embætti ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytis og er umsóknarfrestur til og með 24. apríl næstkomandi.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, verður ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Forsetaúrskurður um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti kveður á um að ráðuneytin séu 9 sem hér segir:

1. forsætisráðuneyti,

2. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,

3. dómsmálaráðuneyti,

4. fjármála- og efnahagsráðuneyti,

5. mennta- og menningarmálaráðuneyti,

6. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti,

7. umhverfis- og auðlindaráðuneyti,

8. utanríkisráðuneyti,

9. velferðarráðuneyti.

Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fjallar um skiptingu verkefna ráðuneyta og má sjá í 3. gr. hvaða stjórnarmálefni falla undir dómsmálaráðuneyti og í 6. gr. hvaða stjórnarmálefni falla undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

Forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra kveður á um hvaða stjórnarmálefni hver ráðherra um sig fer með.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum