Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Tvær skýrslur um vöktun og rannsóknarinnviði

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út skýrslurnar Vöktun á Íslandi; kortlagning og framtíðarsýn og Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar.

Skýrslurnar voru unnar fyrir Vísinda- og tækniráð af verkefnahópi um rannsóknarinnviði og vöktun sem stýrt var af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Vorið 2014 fól Vísinda- og tækniráð mennta- og menningarmálaráðuneytinu að stofna verkefnahóp um rannsóknarinnviði og vöktun (sjá aðgerð 3.3. í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014-2016). Var hópnum ætlað að fjalla um rannsóknarinnviði og kortleggja opinber vöktunarverkefni og að leggja fram tillögur um a) hvernig forgangsraða megi vöktunarverkefnum, b) hvernig stuðla megi að því að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar um vöktun, c) hvort unnt sé að auka hagkvæmni í fyrirkomulagi vöktunar og d) hvernig tryggja megi fjármagn til langtímaverkefna á sviði vöktunar.

Niðurstöður vinnunnar eru tvær skýrslur, annars vegar Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar og Vöktun á Íslandi; kortlagning og framtíðarsýn.

Vöktun á Íslandi; kortlagning og framtíðarsýn .

Í skýrslunni er hugtakið „vöktun“ skilgreint sem „reglubundnar mælingar eða athuganir í þeim tilgangi að skrásetja breytingar yfir lengri tímabil. Þær eru hannaðar til að gefa upplýsingar um viðfang mælinganna þannig að unnt sé að meta ástand viðfangsins í nútíð og fortíð og, í vissum tilfellum, segja fyrir um líklegt ástand þess í framtíðinni“. Í skýrslunni er vöktun á sviði samfélags, atvinnuvega, menningar, lista, heilsu, auðlinda, náttúru og umhverfi kortlögð og byggist kortlagningin á könnun sem send var til um 50 stofnana.

Hópurinn leggur fram fimm tillögur til úrbóta á umgjörð vöktunarmála hérlendis. Tillögurnar eru byggðar á greiningu hópsins á svörum stofnana, umgjörð vöktunar í nágrannalöndunum og lagaumhverfinu hérlendis. Tillögurnar fimm eru eftirfarandi:

1. Mat á vöktunarverkefnum verði unnið með reglubundum hætti.

2. Betri greining fari fram á fjárfestingu í vöktun.

3. Viðmið til forgangsröðunar verði skilgreind.

4. Unnin verði stefna um opinn aðgang að opinberum gögnum.

5. Raunhæft kostnaðarmat liggi fyrir vegna nýrra vöktunarverkefna og vöktunar í tenglum við alþjóðlega samninga og fjármögnun verði tryggð eftir fremsta megni.

Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur einnig gefið út skýrsluna Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar. Skýrslan var unnin fyrir Vísinda- og tækniráð og í samstarfi við umhverfisráðuneytið og verkefnahóp um rannsóknarinnviði og vöktun.

Til rannsóknarinnviða teljast: sérhæfður tækjabúnaður (eða tækjasamstæður), skjala- og gagnasöfn, rafrænir innviðir (s.s. háhraðatengingar), samskiptanet og önnur tæki sem geta talist ómissandi og nauðsynleg til að ná árangri í rannsóknum og nýsköpun.

Á síðustu árum hefur verið mikil áhersla á uppbyggingu rannsóknarinnviða í nágrannalöndum Íslands. Flest ríki Evrópu hafa mótað sér sérstaka stefnu um uppbyggingu og aukna fjárfestingu í rannsóknarinnviðum. Víða er litið á slíka stefnu sem mikilvægan hluta af því að efla þekkingarstarfsemi í landinu, bæði í opinberum stofnunum, háskólum og hjá fyrirtækjum í nýsköpun. Litið er til þess hvernig uppbygging á rannsóknarinnviðum getur stutt við þau markmið að efla þjónustu við stofnanir og fyrirtæki, skapa störf í þekkingariðnaði og laða að vel menntað og hæft starfsfólk. Einnig er horft til þess með hvaða hætti rannsóknarinnviðir geta eflt færni til að takast á við samfélagslegar áskoranir eins og umhverfisbreytingar eða áskoranir í heilbrigðismálum.

Í skýrslunni er lagt til að hugað verði betur að stefnumótun um rannsóknarinnviði hér á landi til framtíðar. Tillögur verkefnahópsins eru fjórar:

1. Unnin verði stefna um rannsóknarinnviði til 5-10 ára.

2. Gerður verði vegvísir um rannsóknarinnviði á Íslandi á grundvelli stefnu um rannsóknarinnviði. Gerðar verði breytingar á lögum nr. 3/2003 um opinberar vísindarannsóknir til að unnt verði að vinna slíkan vegvísi.

3. Unnið verði áfram að því að efla Innviðasjóð.

4. Leitað verði leiða til að tryggja gagnsæja og stefnumiðaða fjármögnun aðildar- og þátttökugjalda í alþjóðlegum rannsóknarinnviðum.

Vöktun á Íslandi; kortlagning og framtíðarsýn.

Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi tilframtíðar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn