Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Samstaða norrænu umhverfisráðherranna í loftslagsmálum

Norrænu umhverfisráðherrarnir í Osló í dag. Frá vinstri: Björt Ólafsdóttir (Ísland), Dagfinn Høybråten (Norræna ráðherranefndin), Karolina Skog (Svíþjóð), Kimmo Tiilikainen (Finnland), Vidar Helgesen (Noregur), Camilla Gunell (Álandseyjar), Isabella Lövin (Svíþjóð), Erik Solheim (Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP)) og Tine Sundtoft.  - myndNorden.org
Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra sat fund norrænu loftslags- og umhverfisráðherranna í Osló í dag.

Loftslagsmál voru í brennidepli á fundinum og sendu ráðherrarnir frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir undirstrika að loftslagsmálin séu stærsta verkefnis mannkyns um þessar mundir. Segja ráðherrarnir í yfirlýsingunni að þeir styðji heils hugar löggjöf og aðgerðir í loftslagsmálum sem byggja á niðurstöðum vísindarannsókna og staðreyndum.

Á fundinum sagði Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, að loftlagsbreytingar af mannavöldum væru stærsta umhverfisógn samtímans. „Gríðarlega mikilvægt er að bregðast við því sem skapar þessa ógn og koma í veg fyrir frekari útblástur gróðurhúsalofttegunda. Stærsta einstaka skrefið sem íslensk stjórnvöld hafa nú tekið í þeim efnum er ákvörðun núverandi ríkisstjórnar landsins um að veita ekki frekari ívilnanir til mengandi stóriðju. Jafnframt verðum við draga úr ofneyslu okkar, sérstaklega hér á Vesturlöndum, því í dag er ofneysla í raun ein helsta orsök þess loftlagsvanda sem við nú glímum við.“

Í yfirlýsingunni kveðast umhverfis- og loftslagsmálaráðherrarnir staðráðnir í að aðildarríki Parísarsamkomulagsins starfi áfram að skilvirkri framkvæmd þess. Stefnt verði að samráði á árinu 2018 þar sem allir aðilar íhugi að auka metnað sinn fyrir árið 2020 í ljósi niðurstaða rannsókna. Kolefnisgjöld og niðurfelling á niðurgreiðslum til jarðefniseldsneytis eru nefnd sem mikilvæg tæki.

Bráðnun íss á norðurslóðum hefur áhrif á alla jörðina
Á fundinum var einnig rædd sú keðjuverkun sem hin hraða bráðnun íss á Norðurslóðum hefur í för með sér. Í Óslóaryfirlýsingunni lýsa ráðherrarnir yfir þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að hlýnun andrúmsloftsins á norðurslóðum er meira en tvöfalt hraðari en annars staðar í heiminum en minnkun ísbreiðunnar raskar orkujafnvæginu í heiminum og hefur áhrif á loftslag um allan heim.

Yfirlýsing norrænu umhverfisráðherranna 2. maí 2017, ensk útgáfa

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn