Hoppa yfir valmynd
22. maí 2017 Innviðaráðuneytið

Jón Gunnarsson ávarpaði landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar

Jón Gunnarsson flutti ávarp við setningu landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar. - mynd

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp við setningu x. landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri í lok síðustu viku. Bar hann þingfulltrúum kveðjur ríkisstjórnarinnar og ræddi meðal annars um mikilvægi viðbragðsaðila í þjóðfélaginu.

Í upphafi ávarps síns rifjaði Jón upp þátttöku sína í starfi samtakanna en hann var formaður árin 2000-2005 á miklum breytingatíma og sagði að baklandið hefði ávallt verið stuðningur og velvilji almennings og fórnfýsi áhugamanna í erfiðum verkefnum og þannig hefði tekist að vinna stórvirki. Ráðherra minntist á hvernig félagið hefði verið frumkvöðull að mörgum verkefnum í leit, björgun og slysavörnum, til dæmis við að innleiða fluglínutæknina, koma upp björgunarskýlum, koma á tilkynningaskyldu sjómanna, stofna Slysavarnaskóla sjómanna og við uppbyggingu fjarskiptakerfis um landið.

Jón sagði Slysavarnaskóla sjómanna heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og að það hefði þótt mjög framsækið að hafa slíkan skóla um borð í skipi. Skólinn væri nú á tímamótum og huga þyrfti að nýju skipi í stað Sæbjargar. Þá sagði hann verkefni viðbragðsaðila sífellt fara vaxandi meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna og mikilvægt væri að halda áfram því mikilvæga samstarfi atvinnumanna og sjálfboðaliða sem þróast hefði í áratugi. Hann kvaðst hafa fyrir setningu landsþingsins tekið þátt í ráðstefnu um ferðaþjónustu og hvort kerfið væri sprungið vegna fjölgunar ferðamanna. Hann sagði svar sitt nei, við hefðum sýnt að þótt verkefnum fjölgi og þau hefðu breyst hefði því verið mætt með auknu samstarfi og betra skipulagi. Björgunarsamtökin hefðu sýnt að þau stæðust slíkt álag og væru traustsins verð.

Ráðherra lagði áherslu á að mikilvægi þess að stjórnvöld og björgunarsveitir ættu gott samstarf og sagði að samtök sjálfboðaliða væru bakhjarl í öllum umfangsmiklum aðgerðum. Í lokin sagði ráðherra að sér þætti vænt um það göfuga starf sem samtökin stæðu fyrir og flutti þeim kveðju frá ríkisstjórninni.

Er viðbragðskerfið sprungið?

Jón Gunnarsson tók einnig þátt í ráðstefnu um ferðaþjónustu á Íslandi undir yfirskriftinni: Er viðbragðskerfið sprungið vegna fjölgunar ferðamanna? Að ráðstefnunni stóðu Slysavarnafélagið Landsbjörg, Háskólinn á Akureyri og embætti Nansen-prófessors í heimskautafræðum og var fjallað um þær áskoranir sem viðbragðsaðilar standa frammi fyrir vegna fjölgunar ferðamanna sem orðið hefur á Íslandi á síðustu árum. Ísland hefur margháttaða sérstöðu hvað varðar uppbyggingu innviða og þjónustu við ferðamenn, meðal annars vegna þess hve landið er strjálbýlt og einnig vegna þess að hluti hluti viðbragðskerfisins byggist á framlagi sjálfboðaliða.

Ráðherra tók þátt í pallborðsumræðum að loknum erindum og voru ásamt honum í pallborði þau Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Eva Björk Harðardóttir, oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps og hótelstjóri Hótels Laka, Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, og Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa.

Pallborðsumræður á ráðstefnu um ferðaþjónustu. Frá vinstri: Smári Sigurðsson, Jón Gunnarsson, Halla Bergþóra Björnsdóttir og Ásgrímur L. Ásgrímsson.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum