Velferðarráðuneytið

Gæðavísar við mat á gæðum og árangri í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisþjónusta - myndJohannes Jansson/norden.org
Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um breytingu á reglugerð um gerð gæðavísa sem notaðir eru til að meta gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar. Breytingarnar snúa að vali á gæðavísum og kröfum um birtingu upplýsinga um niðurstöður þeirra.

Kröfur um gerð gæðavísa sem notaðir eru til að meta gæði og árangur innan heilbrigðisþjónustunnar voru settar með reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 1148/2008. Eins og þar kemur fram er markmiðið með notkun gæðavísa að fylgjast með gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að því að þeir meginþættir sem metnir eru séu sýnilegir þannig að notendur heilbrigðis­þjónustu, stjórnvöld, stjórnendur heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmenn geti metið gæði þjónustunnar og tekið ákvarðanir á faglegum og upplýstum grundvelli. Enn fremur sé markmiðið „...að veita heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðis­stofnunum aðhald við veitingu heilbrigðisþjónustu, auka gæðavitund þeirra, skapa samkeppni á milli þeirra um árangur og gæði og stuðla þannig að umbótum innan heilbrigðisþjónustunnar.“

Val á gæðavísum

Í upphaflegu reglugerðinni var kveðið á um að landlæknir skyldi velja gæðavísa sem lýsa gæðum út frá sjónarhóli notenda, heilbrigðisstarfsmanna, stjórnenda og stjórnvalda. Með breytingunni sem nú hefur verið gerð með reglugerð heilbrigðisráðherra nr. 615/2017 er kveðið á um að landlæknir skuli velja sérstaka landsgæðavísa sem lýsa gæðum út frá sjónarhóli notenda, heilbrigðisstarfsmanna, stjórnenda og stjórnvalda. Jafnframt skuli veitendur heilbrigðisþjónustu velja gæðavísa sem lýsa gæðum þjónustunnar út frá sjónarhóli notenda, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnenda og ber landlækni að hafa eftirlit með því að gæðavísarnir  sem veitendur velja uppfylli kröfur í samræmi við reglugerðina.

Niðurstöður gæðavísa verða birtar opinberlega

Samkvæmt breytingareglugerðinni skulu veitendur heilbrigðisþjónustu birta upplýsingar um niðurstöður gæðavísa þannig að þær séu aðgengilegar fyrir notendur, heilbrigðisstofnanir, heilbrigðisstarfsmenn, stjórnendur og stjórnvöld og sama máli gegnir  um birtingu niðurstaðna um landsgæðavísa Embættis landlæknis.

Reglugerðarbreytingin er unnin í samráði við Embætti landlæknis.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn