Hoppa yfir valmynd
13. september 2017 Félagsmálaráðuneytið

Greiðslur í fæðingarorlofi hækka um næstu áramót

Fyrsta skrefið í áætlun um hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði verður tekið um áramótin samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2018. Hækkunin er í samræmi við áætlun í ríkisfjármálum sem miðast við að hámarksgreiðslurnar verði komnar í 600.000 kr. á mánuði árið 2020.

Áhersla er lögð á að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til að styðja betur við barnafjölskyldur og draga úr tekjumissi fjölskyldna þegar foreldrar nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Verður það gert í áföngum fram til ársins 2020 þannig að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi fari úr 500.00 kr. í 600.000. Fyrsti áfangi tekur gildi 1. janúar næstkomandi þegar mánaðarleg hámarksgreiðslan hækkar í 520.000 kr. vegna barna sem fæðast, verða ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2018.

Félags- og jafnréttismálaráðherra áformar að leggja fram frumvarp á vorþingi 2018 þar sem síðari áfangar hækkunar fæðingarlofs verða lögfestir. Er horft til þess að fólk hafi hag af því að sjá fyrir réttindi sín til fæðingarorlofs. Þannig geti fyrirliggjandi upplýsingar um hækkun hámarksgreiðslna orðið fólki hvati til frekari barneigna og einnig ýtt undir að foreldrar fullnýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Nokkur misbrestur hefur verið á því á liðnum árum í kjölfar þess að greiðslur í fæðingarorlofi voru lækkaðar en það dró verulega úr töku fæðingarorlofs feðra.

Hlutfall feðra sem tóku styttra fæðingarorlof en þrjá mánuði var á árunum 2004 – 2006 um 19%. Til samanburðar var þetta hlutfall komið í um 34% árið 2014 og benda gögn til þess hlutfallið verði svipað fyrir árin 2015 og 2016.

„Það er í mínum huga stórt jafnréttismál að ná til feðranna þannig að þeir nýti vel rétt sinn til fæðingarorlofs og helst að fullu. Markmið laganna er að börnin geti notið samvista við foreldra sína á fyrstu mánuðum lífs síns. Það er bæði mikilvægt að tryggja börnunum þennan rétt en þetta er líka mjög mikilvægt fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði“ segir Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira