Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að reglugerð um tilkynningu atvika í almenningsflugi til umsagnar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir nú til umsagnar drög að reglugerð um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem og greiningu á og eftirfylgni með þeim. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til 2. október næstkomandi á netfangið [email protected].

Með drögunum er lagt til að innleidd verði hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 376/2014 og framkvæmdareglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1018 um skrá þar sem flokkuð eru atvik í almenningsflugi.

Tilkynning atvika er mikilvægur þáttur í að koma í veg fyrir flugslys og alvarleg flugatvik. Með atviki er átt við atburð sem tengist öryggi, einkum slys eða alvarlegt flugatvik, sem stofnar eða gæti stofnað loftfari, farþegum þess eða öðrum einstaklingum í hættu ef ekki er gripið til aðgerða eða gerðar úrbætur. Reynslan hefur leitt í ljós að áður en flugslys ber að höndum verða oft flugatvik og aðrir annmarkar á öryggi. Upplýsingar um slík atvik og aðra annmarka stuðla að bættum forvörnum innan fyrirtækja og stofnana á sviði flugmála.

Áðurnefnd reglugerð ESB kemur í stað eldri tilskipunar um tilkynningu atvika í almenningsflugi. Talin var þörf á að bæta söfnun upplýsinga um atvik meðal aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins en hún þótti ófullnægjandi vegna mismunandi útfærslu ákvæða tilskipunarinnar. Þá þótti þörf á að styrkja vernd heimildarmanna en að fenginni reynslu var ljóst að einstaklingar veigruðu sér við að tilkynna um atvik, sérstaklega ef um var að ræða atvik sem þeir báru ábyrgð á eða áttu þátt í. 

Vakin er sérstök athygli á því að með drögunum er lagt til að þau gildi einnig um loftför sem falla undir II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 216/2008, sbr. 3. mgr. 2. gr. draganna. Ákvæðið byggist á heimild í reglugerð (ESB) nr. 376/2014 en þar segir að aðildarríki geti ákveðið að hún gildi einnig um atvik og aðrar öryggistengdar upplýsingar þar sem loftför sem falla undir II. viðauka eiga í hlut. Samgöngustofa og rannsóknarnefnd samgönguslysa leggja til að þessi heimild verði nýtt en Írland, Austurríki, Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð hafa nýtt sér heimildina ef loftfar er yfir 400 kg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn