Hoppa yfir valmynd

Íslensk stjórnvöld hvött til að vinna áfram að lagabreytingum vegna mútubrota

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um glæpi og fíkniefni (UNODC) hvetur íslensk stjórnvöld til að vinna áfram að lagabreytingum sem hafa verið í undirbúningi um að þyngja hámarksrefsingu fyrir mútuboð til opinberra starfsmanna og refsingar fyrir mútubrot í einkageiranum.

Þetta kemur fram í mati á því hvernig íslenskum stjórnvöldum hefur gengið að innleiða ákvæði 3. og 4. kafla Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem Ísland er aðili að. Drög að frumvarpi um breytingar á almennum hegningarlögum vegna mútubrota voru kynnt á vef ráðuneytisins í vor í aðdraganda þess að leggja málið fram á Alþingi. Með frumvarpinu er komið til móts við tilmælin með því að leggja til að hámarksrefsing fyrir mútuboð til opinberra starfsmanna verði sex ára fangelsi í stað fjögurra og hámarksrefsing fyrir mútubrot í atvinnurekstri verði fimm ára fangelsi í stað þriggja ára.

Fulltrúar UNODC komu hingað til lands í maí 2016 og hittu fjölda gesta – embættismenn, fulltrúa opinberra stofnana, frjálsra félagasamtaka, fjölmiðla og fleiri. Íslensk stjórnvöld hafa ráðist í ítarlega skoðun á því hvernig ákvæði fyrrnefndra kafla sáttmálans endurspeglast í íslenskum lögum og lagaframkvæmd en fulltrúar UNODC hafa síðan farið yfir þá upplýsingagjöf.

Kafli 3 í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu fjallar um það athæfi sem telst refsivert samkvæmt sáttmálanum, svo sem mútubrot, peningaþvætti og fleira. Kafli 4 fjallar um alþjóðlega sakamálasamvinnu, svo sem framsal og samvinnu lögregluliða. Samantekt UNODC um frammistöðu Íslands er aðgengileg á netinu.

Framundan er síðan mat á því hvernig aðildaríkjum samningsins hefur gengið að innleiða ákvæði 2. kafla um forvarnir gegn spillingu og 5. kafla sem fjallar um endurheimt eigna í tengslum við refsiverðan verknað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira