Hoppa yfir valmynd
12. október 2017 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Könnun á viðhorfum fólks til innflytjenda

Nýleg könnun á viðhorfum almennings til innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins var kynnt á samráðsfundi sem innflytjendaráð efndi til um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda í liðinni viku.

Til samráðsfundarins voru boðaðir fulltrúar stofnana, sveitarfélaga og samtaka sem tengjast á ýmsan hátt verkefnum sem fjallað er um í framkvæmdaáætluninni. Til umfjöllunar voru ýmsar aðgerðir sem snúa að upplýsingamiðlun og þjónustu við innflytjendur við komuna til landsins, vinnumarkaðsréttindum og menntun barna af erlendum uppruna. Einnig voru ræddar aðgerðir ætlaðar til að styrkja grasrótafélög innflytjenda.

Meðal þeirra verkefna sem kveðið er á um í framkvæmdaáætluninni eru mælingar á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda á gildistíma áætlunarinnar. Markmiðið er að öðlast þekkingu á viðhorfum samfélagsins til innflytjenda og nýta hana til að rýna árangur tiltekinna aðgerða og meta hvort nýrra sé þörf. Í samræmi við þetta fékk velferðarráðuneytið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera slíka könnun og voru niðurstöður hennar kynntar á samráðsfundi innflytjendaráðs.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru landsmenn almennt fremur jákvæðir í garð innflytjenda og fjölmenningarsamfélagsins. Þeir sem eiga í persónulegum tengslum við innflytjendur eru jákvæðari en aðrir og jákvæðastir eru þeir sem tengjast innflytjendum innan fjölskyldu sinnar, t.d. í gegnum hjúskap eða ef þeir eiga innflytjendur að vinum.

Spurt var um afstöðu til fjölda innflytjenda, hvort það ætti að auka eða draga úr fjölda þeirra sem koma til landsins eða halda fjöldanum óbreyttum. Um 36% svarenda vildu auka fjöldann nokkuð eða mikið, um 30% halda honum óbreyttum en 34% vildu draga nokkuð eða mikið úr fjöldanum.

Spurt var um áhrif innflytjenda á íslenskan efnahag. Tæp 60% svarenda töldu innflytjendur hafa góð áhrif á efnahaginn, um 22% hvorki né en 18% töldu áhrif innflytjenda neikvæð.

Könnun Félagsvísindastofnunar var netkönnun og náði til 1.733 einstaklinga í netpanel stofnunarinnar sem byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Við samsetningu hans hefur þess verið gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal landsmanna 18 ára og eldri.

Niðurstöður könnunarinnar eru greindar eftir kyni, búsetu, menntun, tekjum, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og stöðu á vinnumarkaði og líklegrar afstöðu í kosningum til Alþingis á þeim tíma sem könnunin var lögð fram.

Gagnaöflun könnunarinnar fór fram á tímabilinu 16. mars til 3. maí síðastliðið vor og var svarhlutfallið 65%.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira