Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Evrópsk starfsmenntavika 20. - 24. nóvember 2017

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vill vekja athygli á Evrópsku starfsmenntavikunni sem er ætlað að kynna og efla starfsnám á sem fjölbreyttastan hátt. Vikan var haldin í Brussel í fyrsta sinn í nóvember 2016 undir slagorðinu „Discover your Talent". Viðburðurinn þótti takast svo vel að ákveðið var að endurtaka hann í ár og útfæra hann þannig að sem flestir tækju þátt.

Í fjármálaáætlun stjórnvalda 2018 - 2022 er lögð áhersla á starfsmenntun og með aðgerðum henni tengdri vinnur ráðuneytið að eflingu starfsmenntunar á ýmsan hátt. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sent bréf á alla starfsmenntaskóla með hvatningu til þeirra og allra annarra sem sinna starfsmenntun til að vekja athygli á möguleikum starfsmenntunar hér á landi.

Hugmyndin er að hver finni leið til þess að taka þátt í þessu áhugaverða verkefni á sínum forsendum og gera það að árlegum viðburði að efla kynningu á starfsmenntun. Áhersla er lögð á að hjálpa unga fólkinu að uppgötva hæfileika sína eða eins og segir í yfirskrift vikunnar „Discover your Talent."  Framhaldsskólar eru einnig hvattir til að nýta möguleika á samstarfi við grunnskóla í nágrenni sínu um þetta verkefni.

Auk viðburða í Brussel verða fjölbreyttir viðburðir skipulagðir um alla Evrópu. Ráðuneytið hvetur skóla til að skrá viðburði á sameiginlega vefsíðu starfsmenntavikunnar.

Viðburðir sem skráðir eru á vefsíðuna birtast sem litlir punktar á landakorti. Þannig er vakin athygli á öllum skipulögðum viðburðum í Evrópulöndum sem haldnir verða í starfsmenntavikunni. Þótt talað sé um starfsmenntaviku er hægt að skrá viðburði sem verða haldnir á tímabilinu 1. september til 31. desember 2017.

Nánari upplýsingar veitir tengiliður verkefnisins á Íslandi, Margrét Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá RANNÍS.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira