Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á Uppskeruhátíð ábyrgrar ferðaþjónustu, 7. desember 2017

Kæra áhugafólk um ábyrga ferðaþjónustu

Á þessari uppskeruhátíð er mér efst í huga þakklæti og virðing í ykkar garð. Ykkar sem hrunduð þessu átaki af stað, og ykkar sem hafið síðan gengið til liðs við það.

Til að tryggja ferðaþjónustu á heimsmælikvarða er mjög mikilvægt að áherslum þessa verkefnis sé sinnt af „festu“, svo að ég leyfi mér nú einn fimmaur svona í tilefni af nýjum stjórnarsáttmála.

Umhverfismál, öryggismál, réttindi starfsfólks og jákvæð áhrif á samfélagið: Þetta eru þeir fjórir meginþættir sem fyrirtækin lofuðu að setja sér skrifleg markmið um fyrir árslok.

Það er kannski hæpið að lyfta hér einum þætti umfram aðra, en ég ætla samt að leyfa mér að nefna, að öryggismálin eru mér ofarlega í huga. Þegar öllu er á botninn hvolft getur jú fátt verið mikilvægara en líf og heilsa gesta okkar. Við verðum að tryggja með hverjum þeim ráðum sem við þekkjum, að allir komist heilir heim úr heimsókn sinni til Íslands. Öryggismálin hafa auk þess óbein áhrif á alla hina þættina.

Þetta er ekki síst mikilvægt í vetrarferðaþjónustunni, sem hefur verið sérstakt markmið hjá okkur öllum að efla, og verður áfram. Undanfarnar vikur hafa orðið nokkur slys í umferðinni, sum alvarleg, sem hljóta að vera okkur mikið áhyggjuefni. Fólksbílar hafa lent í árekstri, rútur oltið, og fólk setið fast í ófærð. Ég vil vinna að því með þeim sem hafa besta þekkingu á þessum málum, að sjá til þess að við gerum allt sem við mögulega getum til að koma í veg fyrir slys og óhöpp, ekki síst varðandi umferð að vetrarlagi í okkar góða landi, sem býður okkur jú oft upp á erfiðar og viðsjárverðar aðstæður.

Það er svo stutt síðan ég fór ítarlega yfir helstu verkefni okkar og áherslur á Ferðamálaþingi að það er óþarft að endurtaka mikið af því hér. Nýr stjórnarsáttmáli rímar vel við þær áherslur og gefur okkur gott veganesti í þá vinnu sem er framundan. Ég hlakka til þeirrar vinnu.

Langtímastefnumótun í ferðaþjónustu er mikilvægasta verkefnið til lengri tíma litið, en meðfram þeirri vinnu munum við að sjálfsögðu halda áfram að styðja dyggilega við greinina og vinna með ykkur öllum að því að ná markmiðum Vegvísis. Hann hefur ennþá fullt gildi sem fimm-ára verkefnaáætlun okkar í átt að sjálfbærri og arðbærri atvinnugrein sem eykur hagsæld og lífsgæði á Íslandi í sátt við náttúru og samfélag.

Fagmennska, gæði og ábyrgð eru forsenda þess að við verðum áfram samkeppnisfær, og í því sambandi gegnir þetta verkefni sem við höldum upp á hér í dag mjög mikilvægu hlutverki.

Það er líka sérstaklega ánægjulegt að því sé fylgt eftir með atburði sem þessum, því að við vitum öll að það er ekki nóg að skrifa undir ef eftirfylgnin er ekki til staðar.

Ég vil þakka Festu og Ferðaklasanum fyrir þeirra forystu í þessu mikilvæga verkefni. Öllum samstarfsaðilunum: Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Stjórnstöð ferðamála, Íslandsstofu, Höfuðborgarstofu, Markaðsstofum landshlutanna og Safe Travel. Og síðast en ekki síst öllum þeim sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna og starfa í samræmi við hana á samfélagslega ábyrgan hátt.

Þið eruð svo sannarlega lykillinn að áframhaldandi góðum árangri hinnar mikilvægu atvinnugreinar sem ferðaþjónustan er, fyrir okkur öll.

Takk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira