Dómsmálaráðuneytið

GRECO ánægt með siðareglur þingmanna

GRECO, Samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, lýsa í nýrri stöðuskýrslu ánægju með að Alþingi hafi nú sett sér siðareglur. Samtökin telja þó að styrkja þurfi hagsmunaskráningu þingmanna og hvernig henni er fylgt eftir.

Stöðuskýrslan var gefin út í framhaldi af fundi GRECO í Strassborg 6. desember síðastliðinn  og hefur að geyma mat á því hvernig Ísland hefur hrundið í framkvæmd tilmælum í 4. úttekt samtakanna á Íslandi frá 2013. GRECO telur að íslensk stjórnvöld hafi uppfyllt fimm af tíu tilmælum. Þá hafi verið brugðist við þremur tilmælum að hluta en tvenn tilmæli hafi ekki verið uppfyllt.

GRECO fagnar m.a. því ákvæði í siðareglum Alþingis að þingmenn skuli upplýsa um mögulega hagsmunaárekstra við meðferð mála. Hinsvegar sé brýnt að vinna að umbótum á hagsmunaskráningu þingmanna enda sé hún afar mikilvæg til að koma í veg fyrir spillingu. Alþingi hefur haft tilmæli GRECO til skoðunar og forsætisráðherra hefur einnig lagt til að starfshópur endurskoði siðareglur og hagsmunaskráningu ráðherra, þingmanna og starfsmanna stjórnarráðsins. 

Niðurstaða GRECO er að íslensk stjórnvöld hafi orðið við tilmælum um fræðslu til handa ákærendum um heilindi, siðferði og varnir gegn hagsmunaárekstrum ásamt því að þeir geti stuðst við sérstakar siðareglur. Þá lýsir GRECO ánægju með breytingar á lögum um dómstóla um val á sérfróðum meðdómendum þar sem brugðist er við tilmælum samtakanna um það efni. Hinsvegar ítrekar GRECO að ljúka þurfi endurskoðun á því hvernig dómarar við Félagsdóm eru skipaðir. Íslenskir dómarar hafa nú sett sér siðareglur eins og GRECO hefur lagt áherslu á. Reglunum þurfi þó að fylgja virk fræðsla og símenntun fyrir dómara um siðferði og heilindi í starfi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn