Hoppa yfir valmynd
15. desember 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vonarstjörnur veitingageirans

Sveinspróf í matreiðslu- og framreiðslugreinum fóru fram í Menntaskólanum í Kópavogi í vikunni. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var ein þeirra sem var viðstödd sveinsprófin og hafði hún á orði að með frammistöðu nemendanna væri ljóst að hið góða orðspor Íslands í matreiðslu og framreiðslugreinum myndi enn halda áfram að styrkjast í náinni framtíð.

Lilja sagði: "Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð mikil áhersla á eflingu iðnnáms, verk- og starfsnáms. Það var því mjög ánægjulegt að sjá það vandaða skólastarf sem fram fer í Menntaskólanum í Kópavogi.”

Baldur Sæmundsson áfangastjóri hótel- og matvælagreina fagnaði því að aukning hefur orðið í náminu nú á síðustu misserum. Þar spila ýmsir þættir inn og nefndi hann sem dæmi mikla eftirspurn eftir faglærðu fólki, raunfærnimat og vinnustaðanámssjóð. Að þessu sinni eru að útskrifast 12 nemar í framreiðslu og 25 í matreiðslu en útskrift er tvisvar á ári í faggreinunum. Tæplega 400 nemar eru nú á samning í matreiðslu og framreiðslu. "Stöðum hefur fjölgað sem geta tekið nema á námssamninga og er það vel því skólinn getur tekið á móti fleiri nemum. Nemar sem lokið hafa náminu starfa bæði hér á landi og erlendis og ánægjulegt hvað okkar nemar eru öflugir og sterkir fagmenn."

Prófið var sett upp þannig að nemendur í eldhúsi elduðu mat fyrir gesti og framreiðslunemar báru matinn fram og þjónuðu gestum til borðs. Einnig fóru ákveðnir réttir fyrir prófnefnd sem smakkaði og gaf einkunnir. Í prófinu þurftu nemendur að leysa af hendi verk sem skilgreint er af prófnefnd, höfðu til þess ákveðin tímamörk og urðu að skila af sér verki sem fullnægir kröfum stéttarinnar um óaðfinnanlegt handverk og frágang. Í sveinsprófunum er þannig skorið úr um hvort nemendur hafi aflað sér nægilega traustrar menntunar og verklagni til þess að geta starfað í nafni fagstéttar sinnar á vinnumarkaði.

Í máli Margrétar Friðriksdóttur skólameistara kom fram hve mikilvægar þessar greinar eru fyrir atvinnulífið, ekki síst ferðaþjónustuna. Beðið er eftir hverjum útskrifuðum iðnnema eftir sveinspróf og eru mörg atvinnutilboð á hvern einstakling. "Samstarfið við atvinnulífið hefur verið mjög gott og farsælt í gegnum árin enda skiptast nemarnir á að vera í skóla og úti á námsstöðunum. Sveinspróf hverju sinni er hápunktur námsins og gaman að sjá hversu hugmyndaríkir nemendur eru og fjölbreytnin í sveinsprófsverkefnum mikil. Skólinn er stoltur af sínum nemendum enda endurspegla þeir þann mikla fjölbreytileika sem orðinn er í matarmenningu á veitingastöðum og hótelum landsins. Þá er góð þjónusta frá faglærðum framreiðslumanni það sem gerir góða máltíð enn betri."


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum