Hoppa yfir valmynd
27. desember 2017 Félagsmálaráðuneytið

Vinnuvernd og viðbrögð við kynferðislegri áreitni

Vinnueftirlitið, aðilar er skipa stjórn þess og velferðarráðuneytið standa fyrir morgunverðarfundi 11. janúar nk. til að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með áherslu á kynferðislega- og kynbundna áreitni á vinnustöðum.

Samkvæmt reglugerð nr. 1009/2015 sem byggð er á vinnuverndarlögum ber atvinnurekanda skylda til að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Í því felst m.a. að láta einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað ekki viðgangast og gera starfsmönnum ljóst með skýrum hætti að slík hegðun sé með öllu óheimil. Atvinnurekandi skal greina áhættuþætti er varða félagslegan og andlegan aðbúnað og nýta þá vinnu við forvarnir og gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum.

Jóhann Fr. Friðriksson, sérfræðingur sálfélagslegra þátta hjá Vinnueftirlitinu fjallar um þessi mál í grein á visir.is í dag. Þar fjallar hann m.a. um þá vakningu sem átt hefur sér stað í kjölfar #METOO byltingarinnar sem megi segja að snúi að hluta til að því að viðurkenna mikilvægi sálfélagslegra vinnuverndarþátta. „Með sálfélagslegum vinnuverndarþáttum er m.a. átt við hvernig tryggja megi gott vinnuumhverfi þar sem starfsmenn verða hvorki fyrir félagslegum eða andlegum skaða við vinnu sína.“

Jóhann segir farsælast að starfsmenn eða fulltrúar þeirra komi að gerð áhættumats á vinnustað. Tryggja þurfi að allar áætlanir og leiðir til úrbóta séu kynntar, eftir þeim sé farið og þær endurskoðaðar reglulega. Þá sé mikilvægt að áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum sé öllum aðgengileg.

„Það er skylda atvinnurekanda að bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi. Honum ber einnig að bregðast við verði hann var við atferli eða aðstæður á vinnustaðnum sem líkur eru á að leitt geti til slíkrar hegðunar verði ekki gripið til aðgerða. Starfsmenn sem telja sig hafa orðið fyrir áreitni eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun skulu upplýsa atvinnurekanda, vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins eða þá aðila sem skilgreindir eru samkvæmt viðbragðsáætlun“ segir Jóhann meðal annars í grein sinni.

Morgunverðarfundurinn 11. janúar verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík. Dagskrá fundarins verður auglýst síðar og kynnt á vef Vinnueftirlitsins.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira