Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Fjölmennasti kvennaskóli veraldar heimsóttur

Ewha-háskólinn í Seúl í Suður-Kóreu var heimsóttur af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Skólinn á sér merkilega sögu en hann var stofnaður árið 1886 til að efla menntun kvenna og auka aðgengi þeirra að námi. Um 25.000 konur stunda nám við skólann, sem gerir hann að fjölmennasta kvennaskóla veraldar.

Heisook Kim, rektor skólans, tók á móti ráðherra og fræddi hann um starfsemi skólans, en skólinn er einn af virtustu menntastofnunum Suður-Kóreu. Eitt af því sem kom fram í máli rektors var að á hverju ári fær nokkur fjöldi norður-kóreskra flóttakvenna boð um skólavist í Ewha. Stjórnendur skólans binda vonir við að Kórea sameinist að nýju í eitt ríki og telja jafnframt að aukið aðgengi að námi getið stuðlað að betri aðlögun ríkjanna. Tækifæri og áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar voru jafnframt til umræðu. Eitt af því sem samfélagið er að fást við er hátt atvinnuleysi meðal ungs fólks en það er 10%. Rektor skólans sagði að eitt helsta hlutverk menntakerfisins væri að undirbúa nemendur fyrir þátttöku í atvinnulífinu og að skólinn væri að leggja sérstaka áherslu á að efla allt frumkvöðlastarf.

Að auki ræddi ráðherra og stjórnendur skólans um stöðu menntamála á Íslandi og Suður-Kóreu ásamt því að leggja áherslu á mikilvægi nemendaskipta. Mikill áhugi er meðal stjórnenda að auka samskiptin enn frekar en Ewha og Háskólinn í Reykjavík eiga samstarf á þessu sviði.

,,Árið 1993 steig ég rúmlega tvítug inn í Ewha kvennaháskólann í Seúl til að hefja nám í stjórnmálasögu Austur-Asíu og skrifaði lokaritgerð um sameiningu Norður- og Suður-Kóreu. Það var mjög dýrmæt reynsla að geta stundað nám í Ewha til að skilja betur sögu þessa svæðis‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Mennta- og menningarmálaráðherra mun eiga fleiri fundi á næstu dögum ásamt því að vera viðstödd setningarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang.

 

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn