Hoppa yfir valmynd
3. mars 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fjölbreyttar leiðir til framtíðar í menntamálum

Samtök sjálfstæðra skóla (SSSK) voru stofnuð árið 2005 en tilgangur þeirra er að gæta hagsmuna sjálfstæðra skóla, efla samheldni þeirra, skapa vettvang til skoðanaskipta og vera í fyrirsvari fyrir sjálfstæða leik- og grunnskóla gagnvart opinberum aðilum. Í dag eiga 50 skólar aðild að samtökunum.

Á hverju ári hafa SSSK staðið fyrir ráðstefnu sem starfsfólk sjálfstæðra skóla, fulltrúar skólamála í sveitarfélögunum og aðrir hagsmunaaðilar sækja. Ráðstefnan í ár fór fram 2. mars og bar yfirskriftina „Fjölbreyttar leiðir til framtíðar.“ Erindi fluttu Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Tröppu ráðgjafar, Bergur Ebbi, rithöfundur, Áslaug Hulda Jónsdóttir fyrrum formaður SSSK og Simon Steen, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla í Evrópu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra flutti opnunarávarp ráðstefnunnar. Í ávarpi sínu fór ráðherra m.a. stuttlega yfir sögu sjálfstæðra skóla og ræddi helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í menntakerfinu. Þá sagði hún mikilvægt að rödd sjálfstætt rekinna skóla hljómi áfram og að kostir mismunandi rekstrarforma nýtist sem best til að tryggja jafnrétti til náms og fjölbreytta gæðamenntun fyrir alla.

,,Fjölbreyttar leiðir til framtíðar ber vott um metnað til að ræða úrlausnarefni í fjölbreyttu tæknivæddu fjölmenningarsamfélagi. Ég tel afar mikilvægt að allir aðilar sem koma að menntamálum í landinu nýti hvert tækifæri til að tala upp menntun, hampa því sem vel er gert og vinna ötullega að því að auka virðingu fyrir menntun í landinu, virðingu fyrir kennarastarfinu og að starf þeirra verði metið að verðleikum,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Fjölbreyttar leiðir til framtíðar í menntamálum  - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum