Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Framhaldsskólastigið styrkt

Fjárheimildir framhaldsskólastigsins munu hækka miðað við nýsamþykkta ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023. Sú áætlun gerir ráð fyrir 4,3% hækkun að raunvirði frá árinu 2017 til 2023. Fjárheimildir framhaldsskólanna voru auknar verulega á þessu ári, um rúma 1,2 milljarða frá fyrra ári. Miðað við fyrri áætlun ríkisfjármála frá 2018-2022 er þetta 4,5% hækkun á framlögum til málaflokksins.Áætlanir um heildarfjárheimildir framhaldsskólastigsins í þúsundum milljóna, á verðlagi 2018.

Á síðustu árum hefur framlag til framhaldsskólastigsins hækkað umtalsvert eða um 12,6% á milli áranna 2016-2018. Hækkunin gerir framhaldsskólum kleift að efla skólastarf, meðal annars með því að bæta námsframboð, efla stoðþjónustu sína og endurnýja búnað og kennslutæki.

Framlög á hvern ársnema á framhaldsskólastigi hækkuðu um 6,5% að raunvirði milli áranna 2017-2018 og er gert ráð fyrir 8% hækkun að raunvirði á næsta ári, miðað við að hækkun á málefnasviðinu fari í rekstur framhaldsskólanna. Áætlanir gera alls ráð fyrir 21,4% hækkun að raunvirði á hvern ársnemanda á tímabilinu 2017-2020, úr 1.338.000 kr. í 1.625.000 kr. við lok tímabilsins.

Tvö meginmarkið hafa verið skilgreind á framhaldsskólastiginu. Í fyrsta lagi að fleiri nemendur ljúki prófi úr framhaldsskóla á tilskildum tíma sem jafnframt er liður í því að hækka menntunarstig þjóðarinnar. Í öðru lagi að nemendur hafi greitt aðgengi að fjölbreyttu bók- og starfsnámi sem undirbýr þau sem best fyrir áframhaldandi nám og þátttöku í atvinnulífinu.

„Fjármálaáætlunin endurspeglar stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla menntakerfið í landinu. Á tímabilinu höldum við áfram að hækka framlögin svo hægt verði að efla starfsemi skólanna, styrkja stoðþjónustu við nemendur og fjölga þeim sem ljúka prófi úr framhaldsskóla. Ég er sannfærð um að þessi fjárfesting muni skila sér inn í framtíðina,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Sérstök áhersla er lögð á að efla starfs- og verknám. Í samræmi við þá stefnu stjórnvalda er nú í gangi upplýsinga- og kynningastarf þar sem atvinnulíf, skólar, ráðuneyti og sveitarfélög vinna saman að því að kynna starfsmenntun og möguleika hennar.

Brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum er áskorun sem nú er mætt á margvíslegan hátt. Til að gera framhaldsskólum mögulegt að þjónusta betur nemendur í brotthvarfshættu hefur 800 milljónum kr. verið forgangsraðað í þágu þeirra. Einnig er unnið að því að auka aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu, í góðri samvinnu við velferðarráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn