Hoppa yfir valmynd
16. maí 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

SOS Barnaþorpin heiðra kennara

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ragnar Schram framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna ásamt fulltrúum kennara sem tóku á móti viðurkenningunni: Vilborgu Guðnýju Valgeirsdóttur frá leikskólanum Vallarseli á Akranesi, Írisi Dröfn Halldórsdóttur frá Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ, Birnu Björk Reynisdóttur frá Egilstaðaskóla og Mark Andrew Zimmer frá Menntaskólanum í Hamrahlíð. - mynd
Framlag kennara í þágu velferðar barna var heiðrað á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar, 15. maí. SOS Barnaþorpin á Íslandi veittu kennurum fjölskylduviðurkenningu samtakanna að þessu sinni. Með viðurkenningunni vilja SOS Barnaþorpin vekja athygli á einstaklingum, hópum, fyrirtækjum eða samtökum sem starfa í þágu fjölskyldna á Íslandi og hafa velferð barna í fyrirrúmi.

„Þetta er viðurkenning fyrir óeigingjarnt starf í þágu fjölskyldna sem jafnvel er unnið utan hefðbundins vinnutíma og felst í samtölum við foreldra, ráðgjöf, aðkomu að fjölskylduvandamálum og heimanámi, koma málum í farveg o.m.fl. til að styðja við fjölskylduna.“ sagði í umsögn valnefndarinnar en í henni voru Drífa Sigfúsdóttir, mannauðsráðgjafi, Sigrún Júlíusdóttir, prófessor í félagsráðgjöf við HÍ, Nichole Leigh Mosty, verkefnastjóri hjá fjölskyldumiðstöð Breiðholts og Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti viðurkenninguna en fulltrúar kennara á þremur skólastigum tóku við henni fyrir hönd kennarastéttarinnar. Ráðherra fagnaði framtaki samtakanna heilshugar og gat þess sérstaklega að við ættum öll að nota tækifærin til þess að ræða og fagna störfum kennara, þeir gegni lykilhlutverki í öllu skólastarfi og gæði menntunar og þar með árangur skólakerfisins grundvallist á vinnu þeirra, ástríðu og metnaði.

SOS Barnaþorpin eru stærstu barnahjálparsamtökin í heiminum sem sérhæfa sig í að aðstoða munaðarlaus og yfirgefin börn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira