Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Tvíhliða fundur samgönguráðherra Finnlands og Íslands

Anne Berner, samgönguráðherra Finnlands, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á fundinum í morgun. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem nú tekur þátt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Finnlands, hitti í morgun finnska samgönguráðherrann Anne Berner. Á fundinum ræddum þau stöðu samgöngu- og sveitarstjórnarmála í ríkjunum tveimur.

Sigurður Ingi og Anne Berner eru einnig samstarfsráðherrar Norðurlanda og ræddu þau norrænt samstarf og fyrirhugaða formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni sem hefst um næstu áramót. Þau voru sammála um að verulegur kraftur væri nú í Norðurlandasamstarfinu og að Ísland tæki við formennskunni á spennandi tímum. Margs konar stefnumótun og samstarf á norrænum vettvangi miðar að því að tryggja stöðu dreifðari byggða með samstarfi um fjarskipti og með því að skiptast á reynslu og góðum hugmyndum um atvinnusköpun í smærri bæjum.

Ráðherrarnir ræddu ýmis mál á fundi sínum, t.d. innleiðingu á 5G, ljósleiðaravæðingu og gervihnattaleiðsögukerfi á norðurslóðum. Í því sambandi var talað um Evrópska kerfið sem nær ekki yfir norðurslóðir og voru ráðherrarnir sammála um mikilvægi þess að gera kerfið nákvæmara og nauðsyn þess að lönd á norðurslóðum hefðu samvinnu við að bæta það. Þá ræddu þau siglingaöryggi og leiðir til að fjármagna samgöngur í framtíðinni.

Um hádegisbil tók Sigurður Ingi þátt í hringborðsumræðum á vegum forseta Íslands og forseta Finnlands, sem fram fóru í finnskum ísbrjóti. Í ávarpi sínu lagði ráðherra m.a. áherslu á mikilvægi þess að finna jafnvægið milli náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, það væri hægt og ætti að vera markmiðið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira