Hoppa yfir valmynd
23. maí 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samkomulag um menningarhús á Fljótsdalshéraði

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ásamt Birni Ingimarssyni bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs. - myndGunnar Gunnarsson

Samkomulag mennta- og menningarmálaráðuneytis og Fljótsdalshéraðs um uppbyggingu menningarhúss í sveitarfélaginu var undirritað í gær. Í því felst uppbygging menningarhúss í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og endurbætur á Safnahúsi bæjarins. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs undirrituðu samkomulagið að viðstöddu fjölmenni.

„Við fylgjum hér eftir þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Ég hlakka til að fylgjast með menningarstarfinu hér og á Austurlandi öllu blómstra til framtíðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.

Gert er ráð fyrir að Sláturhúsið verði fjölnota menningarhús sem rúma skal m.a. sviðslist­ir, tónlist, sýn­ing­ar og vinnu­stof­ur listafólks. Einnig verður reist ný burst við Safna­húsið, líkt og ráð var fyr­ir gert í upp­runa­leg­um teikn­ing­um, sem verður til að bæta aðstöðu fyr­ir safn­kost þess, sýn­ing­ar og til fyr­ir­lestra­halds, auk aðstöðu fyr­ir fræði- og rann­sókn­ar­störf. Mark­mið sam­komu­lags­ins er að fram­an­greind­ar bygg­ing­ar verði ekki ein­ung­is vett­vang­ur menn­ing­ar- og safn­a­starf­semi á Fljóts­dals­héraði held­ur að þær gegni einnig lyk­il­hlut­verki sem slík­ar á Aust­ur­landi.

Menningarhús eru á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum en ráðgert var í upphaflegum áformum um byggingu menningarhúsa að slík starfsemi yrði einnig á Norðvesturlandi og á Fljótsdalshéraði.

Við undirbúning og framkvæmd samkomulagsins verður unnið í samræmi við þarfagreiningu sem unnin var af fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis og sveitarfélagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum