Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Aukið gagnsæi og traust milli háskóla undir forystu Íslands

Ásta Magnúsdóttir  ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis, Aldís Mjöll Geirsdóttir fulltrúi Landssamtaka íslenskra stúdenta, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Una Strand Viðarsdóttir sérfræðingur og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands sóttu EHEA-fundinn í París fyrir hönd Íslands.  - mynd

Ísland er aðili að samevrópskra háskólasvæðinu (e. EHEA) en því tilheyra þau lönd sem taka þátt í alþjóðlegu samstarfi er kennt er við Bologna-yfirlýsinguna, er snýr að samhæfingu háskólakerfa til að auðvelda hreyfanleika nemenda, akademískra starfsmanna og háskólamenntaðs vinnuafls. Ráðherrafundur EHEA fór fram í París í síðustu viku en á þeim er farið yfir þróun samstarfsins, markmið og áherslur.

Á síðasta ráðherrafundi var lýst yfir miklum áhyggjum vegna framkvæmdar Bologna-skuldbindinga. Í kjölfarið leiddi Una Strand Viðarsdóttir, sérfræðingur á menntaskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins, samstarf á vettvangi EHEA sem lauk með tillögu til ráðherranna um hvernig taka mætti á þeim vanda með gagnvirkum stuðningi, aðgerðum, eftirfylgni og fræðslu. Tillagan var samþykkt einhljóma. Í kjölfar Parísarfundarins verður því unnið markvissar að þremur grunnstoðum samstarfsins; samræmingu námsgráða, viðurkenningu náms og öflugra gæðastarfi á háskólastigi.

Bologna-samstarfið og samevrópska háskólasvæðið eru Íslandi mikilvægir hvatar fyrir alþjóðlega stefnumótun í háskólastarfi; til að tryggja alþjóðlegt samkeppnishæfi íslenskra háskóla. Háskólakerfið er í stöðugri þróun og flestar grundvallarbreytingar sem gerðar hafa verið á íslenska kerfinu á undanförnum árum eiga grunn sinn í þessari samvinnu.

Á Parísarfundinum sameinuðust ráðherrarnir einnig um yfirlýsingu um markmið samstarfsins fram að næsta ráðherrafundi, sem haldinn verður á Ítalíu vorið 2020. Vinna á að bættri framkvæmd sameiginlegra skuldbindinga; hvetja til nýsköpunar í kennslu og koma á skipulögðu samstarfi milli samevrópska háskólasvæðisins og evrópska vísindasvæðisins.

Hér má lesa yfirlýsingu ráðherranna

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira