Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga árið 2018

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga og er hún mánuði fyrr á ferðinni en í fyrra. Álagningin 2018 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2017 og eignastöðu þeirra 31. desember 2017.

Helstu niðurstöður hennar eru eftirfarandi:

 • Framteljendum fjölgar um 3,8% milli ára og eru samtals 297.674. Þetta er annað árið í röð sem fjölgun þeirra fer yfir 3%. Frá álagningarárinu 2013 er fjölgun framteljenda samtals 12,7% á sama tíma og landsmönnum hefur fjölgað um 8,3%. Þessi þróun sýnir í hnotskurn hvernig vinnumarkaðurinn hefur styrkst undanfarin ár með minnkandi atvinnuleysi, en það var helmingi minna á tekjuárinu 2017 en á tekjuárinu 2012.
 • Almennur tekjuskattur sem rennur í ríkissjóð er lagður á 219.515 einstaklinga en 288.067 einstaklingar fá álagt útsvar sem er tekjustofn sveitarfélaga. Tekjulausir framteljendur eru innan við 10 þúsund talsins, eða 3,2% af heildarfjölda framteljenda. Á árinu 2013 var hlutfallið 4% og tekjulausir tæplega 11 þúsund. Rétt er að taka fram að þeir sem hér eru taldir tekjulausir kunna að vera með fjármagnstekjur.

Mynd 1. Hlutfall framteljenda með álagðan tekjuskatt og útsvar af heildarfjölda framteljenda 2013 og 2018

Mynd 1. Hlutfall framteljenda með álagðan tekjuskatt og útsvar af heildarfjölda framteljenda 2013 og 2018

 • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2018 vegna tekna ársins 2017 nemur 1.395 ma.kr. og hefur hækkað um 10,3% frá fyrra ári. Meðalskattstofn á hvern framteljanda hækkar hins vegar minna vegna fjölgunar þeirra, eða um 6,4%. Til samanburðar hækkaði launavísitala Hagstofunnar að meðaltali um 6,8% milli áranna 2016 og 2017.
 • Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 382,5 ma.kr. og hækkar um 10,9% frá fyrra ári. Álagður tekjuskattur nemur 44% af heildarfjárhæðinni og álagt útsvar 56%.
 • Almennur tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti nemur 168,6 ma.kr. og er lagður sem fyrr segir á 219.515 framteljendur. Gjaldendum fjölgar um 10%, en álagningin hækkar um 10,7% milli ára. Meðaltekjuskattur á hvern gjaldanda hækkar því einungis úr rúmum 763 þús. kr. á ári í 768 þús.kr., eða 0,7%.
 • Álagt útsvar til sveitarfélaga nemur 213,9 ma.kr. og er það 11% hækkun milli ára. Útsvar reiknast af öllum tekjum nema fjármagnstekjum og nýtist persónuafsláttur fjármagnaður af ríkinu upp í útsvar. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum í formi persónuafsláttar. Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars námu 149 þús.kr. á mánuði árið 2017 eftir að tekið hefur verið tillit til 4% lífeyrisiðgjalds.  Útsvar greitt af ríkissjóði í formi persónuafsláttar nemur nú 4% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga eða samtals 8,6 ma.kr. fyrir tekjuárið 2017.

Mynd 2. Þróun meðalskatthlutfalls tekjuskatts og útsvars 2000–2017

Mynd 2. Þróun meðalskatthlutfalls tekjuskatts og útsvars 2000–2017

 • Samkvæmt lögum nr. 79/2016, um fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, sem tóku gildi á tekjuárinu 2016, er nú veittur skattafsláttur til einstaklinga vegna kaupa á hlutabréfum. Samtals 58 einstaklingar nutu þess skattafsláttar vegna tekjuársins 2017 og lækkaði það tekjuskattstofn þeirra um alls 37 m.kr. Þrátt fyrir að um sé að ræða nær tvöföldun í fjölda og fjárhæðum frá því í fyrra fer þessi skattalega ívilnun hægar af stað en búist hafði verið við.
 • Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns eykst umtalsvert árið 2018 vegna tekjuársins 2017 og nemur nú 4,4% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni. Þannig fór fjöldi framteljenda með áætlaðar tekjur úr 10.728 einstaklingum í 14.912 einstaklinga milli álagningaráranna 2017 og 2018, sem er 39% aukning.[1] Sem hlutfall af heildarfjölda framteljenda eru áætlaðir einstaklingar samtals 5% árið 2018 samanborið við 3,8% í fyrra. Ýmsar skýringar kunna að vera á þessari fjölgun, eins og styttri framtalsfrestur og fjölgun erlendra ríkisborgara í hópi framteljenda og að einhverju leyti breytt verklag hjá embætti ríkisskattstjóra.
 • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 27,1 ma.kr. og er það hækkun um 21% milli ára. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fækkar hins vegar umtalsvert, eða um rúmlega 5 þúsund einstaklinga sem svarar til tæplega 12% fækkunar. Meðalskattur á einstakling hækkar þannig úr 521 þús.kr. á álagningarárinu 2017 í 714 þús.kr. í ár sem er hækkun um 37%. Rétt er að hafa í huga að fáir einstaklingar með mjög háar fjármagnstekjur, m.a. vegna tilfallandi sölu á hlutabréfum, kunna að hafa óvenju mikil  áhrif á framangreindar tölur.  
 • Tekjur einstaklinga af arði nema 56,4 ma.kr. sem er 30,1% aukning frá fyrra ári og er arður stærsti einstaki liður fjármagnstekna, eða rúm 39% af heild. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2017 var 14.108 og fækkaði um 437 milli ára.
 • Söluhagnaður eykst um 33,7% milli ára, þótt fjölskyldum sem telja fram söluhagnað fækki nokkuð. Söluhagnaður nemur nú 43,3 ma.kr. en þar af nemur hagnaður af sölu hlutabréfa 38,4 ma.kr. og hækkar um 33,6% milli ára en fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa fækkar um 26,7%, í 3.682, eða um 984 framteljendur.  
 • Vextir nema 30,5 ma.kr. og standa í krónum talið nánast stað, frá fyrra ári,  en 184.256 fjölskyldur telja fram vaxtatekjur og fækkar þeim nokkuð milli ára. Stærstur hluti þess hóps greiðir þó ekki fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum vegna frítekjumarks vaxtatekna sem nemur 150 þús.kr. á ári.
 • Leigutekjur nema 12,7 ma.kr. og aukast um 13,6% milli ára. Alls 7.371 fjölskylda telur fram leigutekjur og þeim fjölgar lítillega á milli ára, eða um 1,2%.
 • Framtaldar eignir heimilanna námu 5.785 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 16,4% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 4.243 ma.kr. að verðmæti og eru nú 73,3% af eignum í stað 72% árið áður. Þannig jókst verðmæti þeirra um 18% milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 1.781 á síðasta ári samkvæmt skattframtölunum, eða um 1,8%.
 • Framtaldar skuldir heimilanna námu um 1.860 ma.kr. í árslok 2017 og jukust um 4,8% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.274 ma.kr. og hækkuðu um 6,5% milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni samsvarar nú 70% af verðmæti þeirra samanborið við 67% árið áður. Tæplega 29 þúsund af um 99 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess, eða sem svarar til rúmlega 29% af heild.
 • Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 22,9% á árinu 2017 og nam samtals 3.925 ma.kr. Áfram fækkar í hópi þeirra sem eru með skuldir umfram eignir og hefur sú þróun nú verið samfelld í sjö ár. Tæplega 35 þúsund fjölskyldur eru nú með skuldir umfram eignir en á síðasta ári voru þær rúmlega 38 þúsund. Fækkunin milli ára nemur tæpum 10%.
 • Útvarpsgjald nemur 3,7 ma.kr. og hækkar sú fjárhæð um 7,7% frá fyrra ári. Útvarps-gjaldið nemur 17.100 kr. á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem hefur tekjur yfir skattleysismörkum. Greiðendum útvarpsgjalds fjölgar um 11.904 milli ára, eða 5,8%. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 2,4 ma.kr. en það er 11.175 krónur á hvern framteljanda yfir skattleysismörkum.
 • Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta hækka  um 9,4% milli ára og nema þær 10,1 ma.kr. Sú niðurstaða endurspeglar fyrst og fremst hækkun viðmiðunarfjárhæða og tekjumarka milli ára. Allar bótafjárhæðir voru hækkaðar um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7%. Liðlega 45 þúsund einstaklingar fá barnabætur sem er 3,7% fjölgun milli ára. Fjárhæð meðalbóta hækkar um 5,5% milli ára, eða heldur minna en bótafjárhæðirnar sjálfar, sem stafar af því að meðaltekjur barnafjölskyldna hafa hækkað umfram tekjuviðmiðunarmörkin á síðasta ári.
 • Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2017, nema tæpum 3 ma.kr. sem er 31,3% lækkun milli ára. Almennar vaxtabætur fá 18.985 einstaklingar og fækkar þeim um 27,3% milli ára, en fjárhæðir vaxtabóta voru óbreyttar frá fyrra ári. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist fyrst og fremst af betri eiginfjárstöðu heimila sem batnaði eins og áður var komið fram um tæp 23% á síðasta ári samanborið við árið 2016. Nýting iðgjalda af séreignarsparnaði til greiðslu íbúðarskulda skiptir þar máli og sömuleiðis lækkun vaxta og auknar tekjur og þar með lækkandi vaxtabyrði.
 • Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 21,8 ma.kr., en 3,3 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir standa því alls 18,5 ma.kr. sem  greiddar hafa verið út. Þar er um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Vangreiddir staðgreiðsluskyldir skattar eða eftirágreiddir skattar sem verða á gjalddaga um mánaðarmótin nema alls 47 ma.kr. af samtals 73 ma.kr., en afgangurinn, samtals 26 ma.kr., koma til innheimtu síðari hluta ársins.

Tafla 1. Útborgun inneignar til einstaklinga í kjölfar álagningarinnar

M.kr.

2017

2018

Barnabætur

2.498

2.759

Vaxtabætur

3.585

2.434

Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars

10.592

11.776

Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts

881

884

Annað

376

609

Alls

17.932

18.462

 • Heildarfjárhæðin sem greidd er út við álagninguna hækkar úr 17,9 ma.kr. í 18,5 ma.kr. milli ára. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, en á móti vega lægri vaxtabætur. Þá mun ríkissjóður auk þessa greiða 2,7 ma.kr. í barnabætur þann 1. október nk.

(1) Fjöldi þeirra sem eru með einhverjar áætlaðar tekjur, en í fréttatilkynningu RSK er einnig meðtaldir þeir sem eru með 0-áætlun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn