Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjármálaráðherra sótti ráðherrafund OECD

Frá ráðherrafundi OECD í París Mynd/OECD - mynd

Tveggja daga ráðherrafundi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) lauk í París í gær. Umfjöllunarefni fundarins í ár var hvernig mætti styrkja stoðir alþjóðakerfisins.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Hann var einn af aðalræðumönnum í vinnuhópi ráðherra um ágæti alþjóðlegrar samvinnu til að bæta hag allra í þjóðfélaginu (e. inclusive growth). Þá var tekin fyrir spurningin um hvernig hægt væri að mæla vellíðan (e. well-being) með öðrum hætti en hefðbundnum hagtölum. Í máli sínu kom fjármálaráðherra meðal annars inn á að ef bæta ætti vellíðan þjóða væri nauðsynlegt að vinna ötullega að jafnréttismálum og minntist um leið á lög um jafnlaunavottun. Þá sagði hann OECD einstakan vettvang sem gæti nýtt sérstöðu sína til þess að hvetja aðildarríki sín til dáða.

Að þessu sinni leiddi Frakkland ráðherrafundinn og sendi frá sér yfirlýsingu við lok hans.Í vinnu að yfirlýsinguni lagði Ísland m.a. áherslu á jafnréttismál, ferðaþjónustu og alþjóðaviðskipti. Í yfirlýsingunni er fjallað umhvernig sé hægt að auka hagvöxt fyrir alla, stuðning við alþjóðaviðskipti, samvinnu í skattamálum og rafræn viðskipti svo eitthvað sé nefnt. Á fundinum var auk þess fjallað um ástand og horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum og kynnti Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, m.a. nýjustu efnahagsspá stofnunarinnar  og er þar að finna kafla um Ísland.

Forsetar Litháen og Kólumbíu mættu á ráðherrafundinn og undirrituðu aðildarsáttmála OECD en bæði ríkin hafa staðið í ströngu aðildarferli undanfarin ár. Kólumbía er aðeins annað Suður-Ameríkuríkið sem hlýtur aðild að stofnuninni en það þykir m.a. vera viðurkenning á þeim miklu umbótum sem þar hafa átt sér stað á síðastliðnum árum. Næstu árin mun OECD halda áfram að vinna með báðum ríkjum að því að framkvæma og fylgja eftir þeim reglugerðabreytingum sem þau hafa gert í umsóknarferlinu undanfarin ár. Aðildarríki OECD eru nú 37 talsins.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira