Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ný lög marka nýja hugsun í opinberri stefnumótun

Tekið hafa gildi ný lög um breytingar á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála. Með þessum breytingum eru vinnubrögð og aðferðafræði aðlöguð að nýrri hugsun í opinberri stefnumótun og áætlanagerð.

Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu eru þrjú meginsvið sem leggja grunn að innviðum og þjónustu í samfélaginu: samgöngur, fjarskipti og sveitarstjórnar- og byggðamál. Ákvæði um samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun hafa verið í lögum um nokkurt skeið og nú hefur tímaspönn og undirbúningur verið aðlagaður að þeirri stefnumörkun sem fram fer samkvæmt lögum um opinber fjármál. Gildistími áætlananna þriggja hefur verið samræmdur sem og verklag við mótun og framkvæmd stefnanna. Auk þess er nú lögð aukin áhersla á samráð í ferlinu.

Þá verður nú lögbundið að taka saman í eina áætlun stefnumörkun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Sveitarstjórnarlögum er breytt á þann máta að ráðherra málaflokksins leggi að minnsta kosti á þriggja ára festi fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði.

Meginsvið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins mynda eina heild þar sem starfsemi á einu sviði hefur áhrif á annað. Með því að samræma þessar stefnur og áætlanir gefst kostur á horfa lengra en til verkefna einstakra málaflokka, móta sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið og hámarka þannig árangur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira