Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Norrænir sveitarstjórnarráðherrar funda í Finnlandi

Fremri röð f.v.: Anu Vehviläinen Finnlandi og Nina Fellman Álandseyjum. Aftari röð f.v.: Hans B. Thomsen Danmörku, Sigurður Ingi Jóhannsson, Aase Marthe J. Horrigmo Noregi og Klara Cederlund Svíþjóð. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, situr nú fund norrænna sveitarstjórnarráðherra í bænum Porvoo í Finnlandi. Meðal umræðuefna er stefnumörkun landanna og umbætur á sveitarstjórnarstiginu. Flest ríkin hafa staðið fyrir talsverðum breytingum sem miða að því að styrkja sveitarstjórnarstigið og gera því betur kleift að sinna lögbundnum verkefnum og taka við fleiri verkefnum frá ríkinu.

Sigurður Ingi upplýsti á fundinum um stöðu sveitarstjórnarmála á Íslandi og ýmis sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga sem unnið er að hér á landi, meðal annars um nýstofnaða nefnd sem ætlað er að skýra hlutverk landshlutasamtaka, nýsamþykkta byggðaáætlun sem unnin var í nánu samráði við sveitarstjórnarstigið o.fl.

Á fundinum kynnti Anu Vehviläinen, ráðherra sveitarstjórnarmála í Finnlandi, umfangsmiklar breytingar sem standa yfir á sveitarstjórnarstiginu þar í landi. Unnið er að stofnun nýs landshlutabundins stjórnsýslustigs sem tekur við um 60% af núverandi verkefnum sveitarfélaga og byggist á nýrri svæðaskiptingu landshluta í 18 einingar. Stjórnir þessara 18 eininga verða kosnar beinni kosningu í viðkomandi landshluta en árlegar fjárveitingar til verkefna koma af fjárlögum finnska ríkisins.

Einnig var rætt um þau tækifæri sem nútímaupplýsingatækni skapar fyrir stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga varðandi bætta þjónustu, aukið aðgengi og skilvirkni. Víða á Norðurlöndum er unnið markvisst að því að bæta þessa þætti og nýta öll þau tækifæri sem hin nýja tækni færir. Sigurður Ingi gerði fundarmönnum grein fyrir áherslu íslenskra stjórnvalda á að byggja upp innviði á þessum sviðum og þeim árangri sem náðst hefur í verkefninu Ísland ljóstengt 2020. Ráðherra gerði grein fyrir áherslu ríkisstjórnarinnar á jafnræði hvað varðar aðgengi allra landsmanna og fyrirtækja að háhraðanettengingu, óháð staðsetningu.

Fundir ráðherranna eru haldnir árlega og skiptast ríkin á að bjóða til þeirra. Á fundinum í Porvoo komu fram margar gagnlegar upplýsingar um stöðu og þróun sveitarstjórnarmála á hinum Norðurlöndunum sem nýst geta við stefnumótun varðandi sveitarstjórnarstigið á Íslandi, m.a. á framangreindum sviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira