Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Vestnorrænir heilbrigðisráðherrar funduðu í Reykjavík

Sirið Stenberg, Svandís Svavarsdóttir og Doris J Jensen - myndVelferðarráðuneytið

Árlegur fundur heilbrigðisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands var haldinn í Reykjavík 28. og 29. ágúst. Svandís Svavarsdóttir stýrði fundinum þar sem ráðherrarnir gerðu hver um sig grein fyrir ýmsum áherslumálum og mikilvægum verkefnum á sviði heilbrigðismála í heimalöndum sínum.

Ráðherrarnir skiptast á um að hýsa fundina sem hafa verið haldnir ár hvert frá árinu 2012. Á fundunum er rætt um þau mál sem efst eru á baugi með áherslu á að miðla þekkingu og reynslu.

Af Íslands hálfu var á meðal annars greint frá Landspítalaverkefninu, fjallað um vinnu við mótun nýrrar heilbrigðisstefnu og fjallað  um breytta fjármögnun heilsugæslu og styrkingu hennar. Einnig var greint frá fundi smáríkja innan Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem haldinn var í Reykjavík í sumar.  Af hálfu Íslands voru einnig haldin erindi um fjarlækningar, mönnun heilbrigðisþjónustunnar, nýjustu tækni í myndgreiningu og hjartaþræðingum sem og skipulag neyðarviðbragðsaðila.

Sirið Stenberg heilbrigðis- og innanríkisráðherra Færeyja sagði frá helstu verkefnum sem unnið er að þar, einkum breyttu skipulagi sjúkrahúsmála, nýframkvæmdum við Landsjúkrahúsið í Þórshöfn, áherslum í þjónustu við börn, áætlun um breytt fyrirkomulag í heilsugæslu ofl.

Doris J Jensen heilbrigðismálaráðherra Grænlands fjallaði um eflingu fjarlækninga, krabbameinsmeðferðar, þjónustu við börn og geðsjúka, aukna áherslu á menntun heilbrigðisstétta á heimaslóð og nýja áfengislöggjöf.

Ráðherrarnir voru sammála um gagnsemi þessara árlegu samráðsfunda, sem leiða fram hugmyndir og lausnir milli landanna.

Í tengslum við fundinn heimsóttu ráðherrarnir Landspítalann þar sem þeir skoðuðu meðal annars nýja jáeindaskannann og aðstöðu hjartaþræðinga. Þeir heimsóttu einnig Neyðarlínuna og fengu kynningu á skipulagi Stjórnstöðvar almannavarna við Skógarhlíð.

Næsti fundur vestnorrænu heilbrigðisráðherranna verður haldinn í Færeyjum að ári.

  • Heimsókn í Bláa lónið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira