Hoppa yfir valmynd
17. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 17: Samvinna um markmiðin

Blása lífi í alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og grípa til aðgerða

Heimsmarkmið númer 17 snýr að því að efla innlent og alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun og er ákall til allra ríkja um að gera skyldu sína. Heimsmarkmiðin byggjast meðal annars á því að fátækt sé ein stærsta áskorun mannkyns og að endi skuli bundinn á hana fyrir 2030. Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að leggja lóð á vogarskálar baráttu gegn fátækt í heiminum og uppfylla þannig pólitískar og siðferðislegar skyldur Íslendinga sem ábyrgrar þjóðar í samfélagi þjóðanna. Nauðsynlegt er að auka flæði fjármagns til þróunarlanda til þess að ná Heimsmarkmiðunum fyrir árið 2030. Aðrir þættir skipta einnig miklu máli, s.s. uppbygging getu og tækniþekkingar, viðskipti og kerfistengd málefni.

Fjármál

Íslensk stjórnvöld styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki skuli veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu, en framlög aðildarríkja Þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) námu 0,31% af VÞT að meðaltali árið 2017. Opinber framlög Íslands til þróunarsamvinnu árið 2017 námu 0,29% af VÞT69 sem er töluverð aukning frá 2015 þegar framlög námu 0,24% af VÞT.70 Þessa hækkun má að hluta til rekja til aukins kostnaðar við móttöku flóttamanna og hælisleitenda á Íslandi sem er talin fram til opinberrar þróunarsamvinnu skv. reglum OECD-DAC. Ein veigamesta ábending jafningjarýni OECD-DAC sem framkvæmd var árið 2017 á þróunarsamvinnu Íslands var að Íslendingar ættu að auka framlög til þróunarsamvinnu enda hafi þjóðin til þess allar forsendur. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun 2019-2023 kemur jafnframt fram að ríkisstjórnin stefni að því að auka framlög til þróunarsamvinnu. Þau verði 0,35% af VÞT árið 2022.

Mikilvægt er að tryggja að fátækustu löndin njóti góðs af þróunaraðstoð en í þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á samvinnu við fátækar þjóðir þar sem lífskjör eru hvað lökust. Í fyrrnefndri jafningjarýni OECDDAC á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands kom fram að rúm 40% af þróunaraðstoð Íslands árið 2015 fóru til mjög fátækra ríkja, sem er töluvert hærra hlutfall en meðaltal aðildarríkja DAC (28%).

Þörfin fyrir fjármagn í þróunarlöndum fer langt fram úr getu opinberrar þróunaraðstoðar eins og áréttað var í niðurstöðum alþjóðaráðstefnu um fjármögnun þróunar í Addis Ababa árið 2015. Því þykir ljóst að fjárfestingar einkaaðila sem stuðla að sjálfbærni, vinna gegn fátækt og hungri og stuðla að almennri velmegun eru nauðsynlegar til að ná Heimsmarkmiðunum. Í þessu skyni styðja íslensk stjórnvöld við stofnanir sem m.a. stuðla að fjárfestingum einkaaðila. Má þar nefna Alþjóðabankann sem er meðal þeirra stærstu á því sviði og leggur mikla áherslu á mikilvægi einkageirans í fjármögnun þróunar. Tvær undirstofnanir bankans, Alþjóðalánastofnunin (IFC) og Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (MIGA), sinna t.d. einvörðungu samstarfi við einkageirann í formi fjárfestingaábyrgða, lána og fjármögnunar til að hvetja til fjárfestinga í þróunarlöndum og viðskipta við þróunarlönd.

Utanríkisráðuneytið stefnir að auknu samstarfi við atvinnulífið um þróunarverkefni þar sem sértök áhersla er lögð á að nýta íslenska sérþekkingu til að vinna gegn fátækt og hungri og stuðla að sjálfbærri þróun. Á sama tíma er unnið að auknu samstarfi við atvinnulífið í því skyni að stuðla að auknum viðskiptum og fjárfestingum í þróunarlöndum. Vinnuhópur um framangreint hefur skilað af sér niðurstöðum þar sem fram koma ýmsar tillögur um hvernig haga megi auknu samstarfi við atvinnulífið og verður unnið að því að koma þeim í framkvæmd á næstu mánuðum. Í kjölfarið á skýrslu og tillögum stýrihóps um Utanríkismál til framtíðar var í október 2017 sett á fót ný deild Svæðasamstarfs og atvinnulífs innan þróunarsamvinnuskrifstofu (ÞSS). Helstu verkefni deildarinnar verða umsjón með svæðasamstarfi og samstarfi við atvinnulífið og starfi skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) á Íslandi. Auk þess að hafa umsjón með undirbúningi og framkvæmd þróunarverkefna er deildinni ætlað að auka þátttöku atvinnulífsins í þróunarsamvinnu á þeim forsendum að slíkt samstarf og möguleg verkefni séu virðisaukandi, hafi skýra tengingu við þróunarsamvinnumarkmið og styðji við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækustu ríkjum heims.

Nauðsynlegt er að þróunarlönd fái einnig aðstoð til að ná sjálfbærri skuldastöðu og stuðla að ábyrgri fjárhagsstjórnun, m.a. með því að fella niður og endurskipuleggja skuldir. Í því skyni tekur Ísland þátt í skuldaniðurfellingu þróunarríkja í gegnum Alþjóðabankann, annars vegar í gegnum Alþjóðaframfarastofnunina (IDA) og hins vegar í gegnum Átak um niðurfellingar á skuldum þróunarríkja (MDRI).

Tækni og uppbygging getu og færni

Stuðla þarf að þekkingarmiðlun og miðlun og dreifingu umhverfisvænnar tækni til þróunarlanda. Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hefur Ísland stutt töluvert við þennan málaflokk. Með starfsemi skóla Háskóla SÞ á Íslandi stuðla íslensk stjórnvöld að yfirfærslu til þróunarlanda og uppbyggingu á getu og færni á sviði jarðhita-, sjávarútvegs-, landgræðslu- og jafnréttismála. Uppbygging getu og færni er jafnframt kjarninn í öllu tvíhliða samstarfi þar sem stutt er við héraðsstjórnir til að veita íbúum grunnþjónustu á borð við menntun, heilbrigðisþjónustu, vatns- og salernisaðstöðu.

Íslensk stjórnvöld hafa sömuleiðis staðið fyrir samstarfi um jarðhitarannsóknir í Austur-Afríku en verkefnið hefur miðað að því að aðstoða lönd við frumrannsóknir til að fá úr því skorið hvort nýtanlegan jarðhita sé að finna. Jarðhitaverkefnið felur mjög eindregið í sér miðlun og dreifingu umhverfisvænnar tækni. Sömuleiðis hefur Ísland stutt við stofnun svæðisbundinnar þjálfunarmiðstöðvar í Kenía fyrir jarðhitaþróun í Afríku, en Jarðhitaskóli HSÞ á Íslandi tekur þátt í þeirri vinnu.

Viðskipti

Viðskipti sem taka tillit til sjónarmiða sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar eru hvati fyrir farsæla efnahagsþróun. Í því samhengi er mikilvægt að efla viðskiptatengsl og auka fjárfestingar í þróunarlöndum. Nauðsynlegt er að minnka viðskiptahindranir fyrir þróunarlönd og auðvelda þeim að koma vörum á markað, en þar gegnir Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) lykilhlutverki. Ísland hefur lagt og leggur áherslu á að ljúka viðræðum í Doha-lotunni. Ísland hefur stutt þetta markmið innan WTO og tekið þátt í viðræðum. Þá hefur Ísland beitt sér fyrir því að koma jafnréttismálum á dagskrá í umræðu um alþjóðaviðskipti innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Nýlega skrifaði Ísland undir samning við Alþjóðaviðskiptamiðstöðina (ITC) í kjölfar athugunar á því með hvaða hætti íslensk stjórnvöld geti veitt þróunarríkjum stuðning í tengslum við viðskiptamál. Stuðningurinn er að hluta eyrnamerktur verkefninu SheTrades sem snýst um efnahagslega valdaeflingu kvenna og hefur það að markmiði að tengja konur og kvenfrumkvöðla í þróunarríkjum og á stríðshrjáðum svæðum við markaði. Lög um að greitt verði fyrir markaðsaðgangi vara upprunninna í löndum sem eru skemmst á veg komin í þróun (LDC) voru samþykkt á Alþingi þann 8. júní 2018. Tollur fellur því niður af vörum sem falla undir 97% allra tollskrárnúmera í tollskrá í viðauka I við tollalög og þá er ráðherra heimilt að setja sérstakar upprunareglur fyrir vörurnar.

Kerfistengd málefni

Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands er lögð áhersla á samstarf og gagnkvæma ábyrgð á árangri. Í því samhengi er lykilatriði að tryggja góða stjórnarhætti og berjast gegn spillingu. Sem dæmi um eignarhald og gagnkvæma ábyrgð á árangri má nefna að í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands er áhersla lögð á að styðja áætlanir samstarfsaðila, bæði héraðs- og landsstjórna. Mikilvægt er að heimamenn beri sjálfir ábyrgð á verkefnum og að eignarhald þeirra á aðgerðum sé skýrt. Á sama tíma er lögð áhersla á að fylgjast vel með árangri verkefna. Þau eru öll metin reglulega af sjálfstæðum aðilum á grundvelli alþjóðlegra viðmiða. Efla þarf samstarf á heimsvísu um sjálfbæra þróun og skiptir aðkoma borgarasamtaka á þeim vettvangi miklu máli. Utanríkisráðuneytið hefur um árabil veitt styrki til verkefna á vegum borgarasamtaka.

Samvinna innanlands

Verkefnastjórn Heimsmarkmiðanna mun beita sér fyrir skilvirku samstarfi við hagsmunaaðila við innleiðingu markmiðanna hérlendis. Þegar hefur verið stofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og samstarf hafið við Embætti landlæknis um tengingu Heimsmarkmiðanna við Heilsueflandi samfélag. Þá mun verkefnastjórnin einnig beita sér fyrir auknu samstarfi milli opinberra aðila innbyrðis sem og við einkaaðila, borgaralegt samfélag og fræðasamfélagið. Í því skyni hafa kynningarmál fyrst um sinn verið höfð í forgrunni til að auka vitund og þekkingu landsmanna á markmiðunum. Í framhaldi af því mun verkefnastjórnin skapa vettvang fyrir ólíka hagsmunaaðila til að eiga samráð og koma sínum sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld. Farið er nánar yfir áform í þessum efnum síðar í skýrslunni en samstarf um markmiðin er og mun áfram verða ein af megináherslum verkefnastjórnarinnar í hennar störfum.

69 OECD, 9. apríl 2018, Development aid stable in 2017 with more sent to poorest countries.

70 OECD, 8. apríl 2014, Development aid stable in 2014 but flows to poorest countries still falling

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira