Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Ráðherra boðar til húsnæðisþings og leggur fram skýrslu um húsnæðismál

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, boðar til húsnæðisþings 30. október, í samvinnu við Íbúðalánasjóð, undir yfirskriftinni „Húsnæði fyrir alla“. Á þinginu verður í fyrsta sinn lögð fram skýrsla ráðherra um stöðu og þróun húsnæðismála, í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum um húsnæðismál á síðasta löggjafarþingi.

Dagskrá þingsins er fjölbreytt þar sem fjallað verður um húsnæðismál og stöðu þeirra frá ólíkum sjónarhornum og mismunandi þörfum fólks. Fjallað verður um fasteignamarkaðinn í heild, vandamál og lausnir á leigumarkaði, verkefni og aðgerðir stjórnvalda á sviði húsnæðismála, húsnæðismál á landsbyggðinni og jöfn tækifæri til uppbyggingar óháð búsetu og um ýmsar hliðar húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu, þörf fyrir sveigjanleika í búsetuformum og svo mætti áfram telja.

Þetta er í annað sinn sem félags- og jafnréttismálaráðherra efnir til húsnæðisþings sem haldið skal árlega, en ákvæði þess efnis var leitt í lög með breytingu á húsnæðislögum sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor. Þá var ennfremur lögfest að ráðherra skuli við upphaf húsnæðisþings leggja fyrir skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála.

Við þurfum róttækar lausnir"

Ásmundur Einar segir húsnæðisþingið vera mikilvægan vettvang fyrir umræðu um þennan mikilvæga málaflokk sem varðar okkur öll. „Ríkisstjórnin hefur þá skýru sýn að öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Allar fjölskyldur landsins eiga rétt á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta þarf að tryggja um allt land en eins og staðan er núna er ljóst að til þess þarf fjölþættar aðgerðir byggðar á traustum grunni þekkingar á þörfum fólks á húsnæðismarkaði og markvissum áætlunum í þessum efnum. Við þurfum róttækar lausnir í húsnæðismálum, aðstæður kalla á slíkt“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Húsnæðisþingið 30. október verður haldið á Hilton Reykjavík Nordica kl. 10.00 - 16.30. Opið er fyrir skráningu þátttöku á vef Íbúðalánasjóðs. Ekki verður innheimt gjald fyrir aðgang að ráðstefnunni en unnt er að skrá sig í hádegisverð sem þátttakendur greiða fyrir á staðnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira