Hoppa yfir valmynd
6. desember 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Umgjörð um rannsóknarinnviði – opið samráð

Lagafrumvarp sem heimilar stjórnvöldum að taka formlega þátt í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) er nú til umsagnar í Samráðsgátt. Rannsóknarinnviðir eru aðstaða, aðföng og þjónusta sem vísindamenn nýta við rannsóknir og til að stuðla að nýsköpun á fagsviðum sínum. Til rannsóknarinnviða teljast meðal annars sérhæfður tækjabúnaður, skjala- og gagnasöfn, rafrænir innviðir, samskiptanet og önnur tæki sem talist geta ómissandi og nauðsynleg til að ná árangri í rannsóknum og nýsköpun. Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um frumvarpið sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 723/2009 eins og henni var breytt með reglugerð ESB nr. 1261/2013.

ERIC-fyrirkomulagið er viðurkennt rekstrarform í öllum ESB-ríkjum og hefur í för með sér ákveðnar undanþágur t.d. tengdum virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að dómstóll Evrópusambandsins hafi lögsögu yfir málssókn milli félagsmanna í tengslum við ERIC-samtökin, málssókn milli félagsmanna og ERIC-samtakanna og málssókn sem Evrópusambandið er aðili að. Í flestum tilfellum mun ERIC-rekstrarformið verða nýtt hjá þegar starfandi rannsóknarinnviðum sem hafa náð ákveðinni stærð og þroska og eru talin starfa betur sem ERIC.

Mikið samstarf á sér nú stað um uppbyggingu fyrsta flokks rannsóknarinnviða í Evrópu. Oft er um að ræða mikla fjárfestingu sem erfitt er fyrir eitt ríki að standa undir, ekki síst þegar um er að ræða lítið land eins og Ísland. Þátttaka í ERIC-samtökum veitir íslenskum stofnunum aðgang að hágæða innviðum og er það líklegt til að efla rannsóknar- og nýsköpunarstarf hér á landi þegar til lengri tíma er litið. Það er því mikilvægt að skapa almenna lagaumgjörð til að gera Íslandi fært að taka þátt í slíku samstarfi.

Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda þar inn umsagnir eða ábendingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira