Hoppa yfir valmynd
17. desember 2018

Skrifstofustjóri á skrifstofu jafnréttismála

Skrifstofustjóri á skrifstofu jafnréttismála 
 
Forsætisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu. Skrifstofan verður sett á fót samhliða flutningi jafnréttismála til forsætisráðuneytisins, sbr. forsetaúrskurð nr. 119/2018, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem öðlast gildi 1. janúar 2019. 

Helstu verkefni skrifstofunnar verða:
Framfylgd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, meðal annars framkvæmd og eftirlit með innleiðingu jafnlaunavottunar hjá stofnunum og fyrirtækjum. 
Framfylgd þingsályktunar um Jafnréttissjóð Íslands.
Stefnumótun á sviði jafnréttismála, meðal annars með tilliti til áframhaldandi lagaþróunar og útvíkkun jafnréttishugtaksins svo sem með tilliti til trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna og kyntjáningar, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og fyrirhugaðrar lagasetningar um kynrænt sjálfræði 
Samhæfing við framkvæmd jafnréttismála milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands
Þátttaka í alþjóðastarfi á sviði jafnréttismála

Menntunar- og hæfniskröfur:
Menntun á háskólastigi sem nýtist í starfi
Reynsla af störfum innan stjórnsýslunnar og þekking á jafnréttismálum er æskileg
Hæfni og reynsla í að leiða stefnumótun, samráð og undirbúning verkefna
Forystu-, samskipta- og skipulagshæfni
Góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að setja fram mál í ræðu og riti

Að auki skulu umsækjendur fullnægja almennum starfsgengisskilyrðum skv. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Umsóknarfrestur er til og með 5. janúar nk.

Senda skal umsóknir þar sem fram kemur hvernig umsækjendur uppfylla ofangreindar menntunar- og hæfniskröfur til forsætisráðuneytisins, Stjórnarráðshúsinu, 101 Reykjavík eða með tölvupósti á póstfang ráðuneytisins: [email protected]. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið liggur fyrir.

Í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, verður sérstök hæfnisnefnd skipuð til að fjalla um hæfni umsækjenda, sbr. reglur nr. 393/2012, um ráðgefandi nefndir er meta hæfi umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.

Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs.

Nánari upplýsingar veitir Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, í síma 545-8400.

Í forsætisráðuneytinu, 17. desember 2018.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum