Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2019

Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

 
Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Heilbrigðisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna til fimm ára frá 1. apríl 2019.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veitir íbúum höfuðborgarsvæðisins alhliða heilsugæsluþjónustu sem grundvallast á sérþekkingu fagstétta og víðtæku þverfaglegu samstarfi.

Forstjóri hefur forgöngu um þróun og eflingu heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og í samvinnu við aðila sem veita almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veltir um 8,5 milljörðum á ári og stöðugildi hjá stofnuninni eru um 525.

Forstjóri ber ábyrgð á að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf sem ráðherra setur honum. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi og þjónustu stofnunarinnar, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Menntunar- og hæfniskröfur:
• Háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun kostur.
• Farsæl reynsla af stjórnun og rekstri.
• Þekking og reynsla af mannauðsmálum.
• Þekking og reynsla á sviði heilbrigðisþjónustu.
• Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
• Jákvæðni og hæfni í mannlegum samskiptum.
• Leiðtogahæfileikar.

Hæfni umsækjenda verður metin af nefnd, skv. 2. mgr. 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Um laun forstjóra fer eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um.
Umsóknum skal fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hæfni viðkomandi til að gegna starfinu. Nánari upplýsingar um starfið veitir Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri, [email protected]. Umsóknum skal skila rafrænt á netfangið [email protected] eða til heilbrigðisráðuneytisins, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík, eigi síðar en 28. janúar 2019

Öllum umsóknum verður svarað þegar heilbrigðisráðherra hefur tekið ákvörðun um skipun í embættið.  

Heilbrigðisráðuneytinu, 11. janúar 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum