Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla samstarfshóps um undirboð og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók í dag við skýrslu samstarfshóps um undirboð og brotastarfsemi á innlendum vinnumarkaði sem starfað hefur undir forystu Jóns Sigurðssonar fyrrv. ráðherra.

Í skýrslunni leggur samstarfshópurinn áherslu á að stöðva tafarlaust brotastarfsemi á vinnumarkaði hvort sem um er að ræða félagsleg undirboð eða annars konar brot í ljósi sameiginlegra hagsmuna launafólks, atvinnulífsins og samfélagsins alls. Samstarfshópurinn stendur sameiginlega að þeim tillögum sem fram eru lagðar.

Markmiðið með tillögum samstarfshópsins er að regluverk á vinnumarkaði verði skilvirkt og að þær aðgerðir sem ráðist verður í skili tilætluðum árangri. Að mati hópsins er skýr pólitískur vilji og stuðningur stjórnvalda forsenda þess að árangur náist.

Helstu tillögur samstarfshópsins eru eftirfarandi:

  • Brýnasta verkefnið er að taka á kennitöluflakki á skilvirkan hátt. Lagðar verði til grundvallar sameiginlegar tillögur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, svo og tillögur Ríkisskattstjóra. Í tillögunum er m.a. kveðið á um heimild til að setja forsvarsmenn fyrirtækja í tímabundið bann við þátttöku í stjórnun félaga með takmarkaða ábyrgð við tilteknar aðstæður (atvinnurekstrarbann), og auk þess er skerpt á fjölmörgum öðrum atriðum.
  • Komið verði upp föstum samráðshópi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem beri ábyrgð á sameiginlegri stefnumótun um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.
  • Þau stjórnvöld sem fara með valdheimildir á vinnumarkaði (Lögreglan, Ríkisskattstjóri, Vinnueftirlitið, Vinnumálastofnun) geri með sér formlegt samkomulag um skipulegt samstarf gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Formbundin verði reglulegt samráð og samstarf þessa samstarfsvettvangs við aðila vinnumarkarðarins um stöðumat, greiningu og sameiginlegt vinnustaðaeftirlit.
  • Útfært verði hvernig megi fyrirbyggja alvarleg og/eða ítrekuð brot gegn starfsmönnum með því að útvíkka refsiábyrgð lögaðila og fyrirsvarsmanna.
  • Stjórnvöldum verði veittar lagaheimildir til að taka á brotastarfsemi, m.a. með þvingunarúrræðum og stjórnvaldsviðurlögum.
  • Sett verði skylda til keðjuábyrgðar í lög um opinber innkaup.
  • Komið verði í veg fyrir brotastarfsemi á vinnumarkaði undir formerkjum starfsnáms eða sjálfboðaliðastarfsemi og markaður skýr rammi um hvað skuli heimilað undir þeim formerkjum.
  • Kortlagðar verði með skipulegum hætti þær lagaheimildir sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafa til að skiptast á gögnum og upplýsingum og gefin út handbók fyrir starfsmenn sameiginlegan vettvang. Veittar verði viðbótarlagaheimildir eins og tilefni kunna að verða til.
  • Tryggð verði viðeigandi aðstoð og vernd fyrir fórnarlömb vinnumansals og nauðungarvinnu. Aðgerðaráætlun gegn mansali liggi fyrir og að henni sé framfylgt. Endurskoðuð verði skilgreining á mansali, sett í lög bann við nauðungarvinnu og refsiákvæði til að tryggja skilvirka framkvæmd.
  • Bætt verði verulega upplýsingagjöf til erlendra starfsmanna, t.a.m. með stofnun ráðgjafarstofu og aukinni upplýsingagjöf á vefnum. Einnig verði skipulögð upplýsingagjöf til atvinnurekenda um starfskjör.

Í hópnum sátu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, embætti ríkislögreglustjóra, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, forsætisráðuneyti, Ríkiskattstjóra, Vinnueftirliti ríkisins, Vinnumálastofnun, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.

-----------------------

Mynd efst í frétt: 
Neðri röð fv.: Jón Sigurðsson, formaður samstarfshópsins, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, og María Lóa Friðjónsdóttir, ASÍ.
Efri röð fv.: Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Oddur Ástráðsson, skipaður án tilnefningar, Gissur Pétursson ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, Björn Þ. Rögnvaldsson, Vinnueftirlitinu, Þórunn Sveinsdóttir, Vinnueftirlitinu, Ellisif Tinna Víðisdóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Grönvald, ASÍ, Leifur Valentín Gunnarsson, forsætisráðuneytið, Lilja Rún Ágústsdóttir, ríkisskattstjóri, Edda Bergsveinsdóttir, Vinnumálastofnun, Bjarnheiður Gautadóttir, félagsmálaráðuneytið, Gunnar Þ. Gylfason, félagsmálaráðuneytið og Álfheiður M. Sívertsen, Samtök atvinnulífsins. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum