Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Bætum starfsumhverfi í menntakerfinu: kennarafrumvarp í opið samráð

Frumvarpsdrög nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla eru nú aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda. Með kennarafrumvarpinu er ráðgert að framvegis verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu hér á landi í stað þriggja. Ennfremur verður í fyrsta sinn lögfest ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum.

„Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að bæta starfsumhverfi í menntakerfinu til framtíðar. Þar eru kennarar lykilfólk, þeir móta framtíð okkar allra með störfum sínum og það er okkar markmið að stuðla sem best að starfsþróun þeirra. Það gerum við meðal annars með því að horfa til hæfni íslenskra kennara, auka sveigjanleika og skapa svigrúm fyrir aukið flæði milli skólastiga,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Frumvarpið gerir ráð fyrir skilyrðum um sérhæfða hæfni til kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í stað núgildandi laga þar sem inntak og umfang menntunar kennara og skólastjórnenda er skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis.

Ætlunin er að breytingarnar leiði til meiri sveigjanleika, flæðis kennara milli skólastiga og að gæði menntunar og fjölbreytileiki hennar aukist. Einnig er breytingunum ætlað að stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra og eru taldar líkur á að þær verði til þess að efla skólaþróun, auka starfsánægju og styðja við nýliðun í kennarastétt líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Með frumvarpinu er einnig mælt fyrir um heimild til að fela þar til bæru stjórnvaldi afgreiðslu og útgáfu leyfisbréfa til kennslu.

Smelltu hér til að kynna þér málið í Samráðsgátt. Samráðið stendur yfir til 8. mars.

Markmið Samráðsgáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er á einum stað hægt að finna öll mál ráðuneyta sem birt hafa verið til samráðs við almenning. Öllum er frjálst að senda þar inn umsagnir eða ábendingar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira