Hoppa yfir valmynd
13. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

EES og atvinnulífið: ræða utanríkisráðherra á morgunfundi utanríkisráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um EES-samstarfið

EES OG ATVINNULÍFIÐ
MORGUNFUNDUR UTANRÍKISRÁÐUNEYTISINS, ÁSAMT SA OG ASÍ
13. MARS 2019

ÁVARP UTANRÍKISRÁÐHERRA

Góðir gestir.

Ég ætla að hefja þennan fund á því að fullyrða að EES-samningurinn sé mikilvægasti viðskiptasamningur sem við Íslendingar höfum gert og ég held því raunar fram að EES-samningurinn sé einn allra mikilvægasti alþjóðasamningur í sögu okkar sem fullvalda þjóðar.

Um þessar mundir er aldarfjórðungur liðinn frá því að EES-samningurinn tók gildi.
Þetta er langur tími í sögu okkar sem fullvalda þjóðar. Það er áhugaverð staðreynd að um þriðjungur Íslendinga er fæddur eftir gildistöku samningsins og líklegt er að stór hluti landsmanna muni vart eftir lífinu fyrir tilkomu EES. Þetta er EES-kynslóðin ef svo mætti að orði komast.

Við höfum á síðustu 25 árum notið ríkulega góðs af kostum EES-samningsins. Þá er ég ekki bara að vísa til aukningar í landsframleiðslu og ráðstöfunartekna einstaklinga samhliða stórauknum útflutningi og utanríkisverslun almenn, heldur einnig umbætur á laga- og samkeppnisumhverfi, bæði fyrir neytendur og atvinnulífið, sem við í dag teljum sjálfsagðar, að ónefndum fjölmörgum tækifærum á sviði vísinda-, rannsókna og menntamála.

Við teljum þetta í dag svo sjálfsagt.

Og kannski er lykilhugtakið hér sjálfsagt. Hvort sem horfum á málin sem atvinnurekendur eða launþegar, sem innflytjendur eða útflytjendur, sem fræðimenn eða námsmenn, þá er svo margt í okkar umhverfi og í daglegu lífi sem við teljum sjálfsagt en er í reynd grundvallað á þeim réttindum sem við njótum samkvæmt EES-samningnum.

Þessi staða er alltaf hættuleg. Þegar við teljum eitthvað sjálfsagt eða sjálfgefið þá erum við aldrei nær því að missa það frá okkur.

Og hvað er það sem við eigum á hættu að missa?

EES-samningurinn felur í sér nánast óheftan aðgang að einum stærsta markaði heims.

EES-samningurinn felur í sér að íslensk fyrirtæki keppa á jafnræðisgrundvelli við evrópsk fyrirtæki.

EES-samningurinn felur í sér niðurfellingu toll og afnám tæknilegra viðskiptahindrana.

EES-samningurinn felur í sér að Íslendingar geta búið og unnið hvar sem er á EES-svæðinu.

Þetta er að hluta til ávinningur okkar af EES-samningnum. En hvert er gjaldið? Fengum við allt fyrir ekkert, eins og sagt var á sínum tíma?
Kannski ekki, en sú lýsing er þó ekki mjög fjarri lagi.

Á sama tíma og við tökum þátt í innri markaði Evrópu hefur okkur tekist að standa utan við þau svið þar sem við teljum hagsmuni okkar ekki ganga saman við ESB. Íslenska sjávarútvegsstefnan, sem er ein aðalundirstaða hagkerfis okkar, lifir góðu lifi á okkar eigin forsendum. Sömuleiðis höldum við uppi landbúnaðarstefnu sem hentar séraðstæðum Íslands.

Við erum ekki hluti af tollabandalagi sambandsins og við getum stundað frjáls viðskipti og gert fríverslunarsamninga við þá aðila sem okkur sýnist.

EES-samningurinn þýðir í raun að Evrópumarkaðurinn er okkar kjölfestumarkaður.
Óheftur aðgangur að kjölfestumarkaði okkar, innri markaði Evrópu, hefur veitt okkur frelsi og áræði til að afla nýrra markaða fyrir vörur okkar og þjónustu. Innri markaðurinn er kjölfestan og stöðugleikinn um leið og við leitum tækifæra á nýmörkuðum.

Og vegna þess að við stöndum fyrir utan tollabandalagið getum við leitað nýrra tækifæra í þeim mörkuðum sem nú eru að vaxa hraðast.

Ágætu fundargestir.

EES-samningurinn á sér óvildarmenn og hefur átt um nokkurt skeið. Vegna þess hve góður samningurinn er og hversu vel hann tryggir íslenska hagsmuni, er hann helsta hindrunin í vegi þeirra sem vilja að Ísland gangi í tollabandalag Evrópusambandsins með fullri aðild að sambandinu. Ef EES-samningsins nyti ekki við, ættu sjónarmið þessara hagsmunaafla greiðari leið að íslensku þjóðinni.

Með markvissum og þaulskipulögðum hætti hafa ESB-sinnar hér á landi reynt að grafa undan EES-samningnum. Skýrasta dæmið um rangfærslur í þessu skyni eru linnulausar fullyrðingar um að við Íslendingar innleiðum 80-90 prósent af löggjöf Evrópusambandsins.

Og af því að við gerum það, þá gætum við allt eins verið í Evrópusambandinu og haft þá bein áhrif á mótun löggjafarinnar.

Þessu er ítrekað haldið fram og klifað á þessari tölu, 80-90%. Á fyrsta ári mínu sem utanríkisráðherra lét ég gera úttekt á þessu og þá kemur í ljós, svart á hvítu, að frá gildistöku samningsins árið 1994 og til ársloka 2016 þurftum við Íslendingar að innleiða 13,4% af gerðum Evrópusambandsins.

Þá er því einnig ranglega haldið fram að undir EES-samninginn falli öll helstu málefnasvið ESB og við séum því hvort eð er nánast inni í sambandinu en án áhrifa. Þetta er líka fullkomlega rangt. Mestu skiptir fyrir okkur að við erum ekki hluti af sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni sem enginn getur lengur mælt bót.

En þar fyrir utan þá erum við laus við stefnu ESB þegar kemur að landbúnaði/dreifbýlisþróun, skattamálum, gjaldmiðilssamstarfi, byggðastefnu, réttarvörslu, dóms- og innanríkismálum, tollabandalagi, utanríkistengslum, öryggis- og varnarmálum, fjárhagslegu eftirliti, framlagsmálum og stofnunum, svo eitthvað sé nefnt.

Af 34 köflum ESB löggjafarinnar, þá eru 10 kaflar að fullu hluti af EES-samningnum og 13 kaflar standa alfarið fyrir utan.

Í stuttu máli erum við aðilar að því sem hentar okkur best en það sem okkur yrði mest íþyngjandi stendur fyrir utan. Þetta er það sem menn áttu við þegar þeir lýstu samningnum sem „allt fyrir ekkert.“

Linnulausar rangfærslur ESB-sinna víkja ekki staðreyndum til hliðar. Innganga í ESB myndi þýða að við tækjum upp 100% af ESB gerðum en ekki 13,4%. Innganga í ESB myndi þýða að allir 34 málaflokkar ESB ættu við um okkur en ekki þeir sem okkur eru hagfelldastir.

Staðreyndin er sú að við erum aðilar að sérsniðnum samningi sem hentar íslenskum hagsmunum ákaflega vel.

EES-samningurinn er þannig þyrnir í augum þeirra sem eiga þann draum stærstan og mestan að ganga inn í tollabandalag ESB.

En á allra síðustu misserum hefur þessum óvildarmönnum EES-samningsins borist liðsauki, og sá liðsauki er heldur betur úr óvæntri átt. Hreyfing sem lengst af barðist gegn inngöngu Íslands í ESB hefur nú beint spjótum sínum að EES-samningnum og finnur honum allt til foráttu. Því er haldið fram að samningurinn feli í sér skerðingu á fullveldi Íslands og honum verði að segja upp.

Það er kaldhæðnislegt að ESB-sinnar og þessir sjálfskipuðu fullveldisverðir hafi sameinast um að koma EES-samningnum fyrir kattarnef. Þótt endamarkið sé ekki hið sama hjá þessum hópum hafa þeir sameiginlega hagsmuni af því að ryðja EES-samningnum úr vegi.

Ef þessum hreyfingum tekst sameiginlegt ætlunarverk sitt þá stöndum við Íslendinga frammi fyrir tveimur kostum þegar kemur að því að tryggja hagsmuni okkar á þessum kjölfestumarkaði okkar í Evrópu.

Annars vegar með inngöngu í ESB með öllu því sem aðild fylgir, þ.á m. sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni og tollabandalaginu. Hinn kosturinn væri tvíhliða samningur við Evrópusambandið.

Við sjáum hvernig fimmta stærsta efnahagsveldi heims, Bretlandi, gengur að gera tvíhliða samning við ESB.

Dettur einhverjum í hug að Ísland gæti upp á eigin spýtur náð samningi við ESB um sambærileg eða betri kjör en þau sem við njótum samkvæmt EES-samningnum? Og höfum í huga að kjör eru ekki bara tollaprósentur. Fyrir íslenskan útflutning til Evrópu skipta tæknilegar hindranir mun meira máli í flestum tilvikum.

Það er í þessu sambandi fyllsta ástæða til að rifja upp og taka undir orð þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, þegar EES-samningurinn var í höfn, að við hefðum aldrei náð viðlíka samningi nema í samfloti með öðrum EFTA-ríkjum. Þau sannindi áttu við þá og þau eiga við í dag enn frekar.

En þýðir þetta að EES-samningurinn sé fullkominn og hafinn yfir gagnrýni?

Nei, svo sannarlega ekki.

Við eigum stöðugt að leita leiða til að bæta framkvæmd hans og sníða af honum þá ágalla sem fyrir kunna að finnast. Á síðustu tveimur árum höfum við verið að efla hagsmunagæslu okkar við mótun löggjafar sem tekin er upp í EES-samninginn. Við höfum staðið vörð um tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem felur í sér að við höfum okkar eigin eftirlitsstofnun og okkar eigin dómstól. Þetta eru öflugar stofnanir sem eiga að njóta trausts sem undirstaða samningsins.

Ég vék að því áður að ekkert gerist sjálfkrafa og það er á okkar ábyrgð að nýta þau mörgu tækifæri sem EES-samningurinn veitir okkur. Öflug þátttaka og virk hagsmunagæsla eru lykillinn að árangri í EES-samstarfinu, eins og á öðrum alþjóðlegum vettvangi. Það þýðir ekki að sitja á hliðarlínunni þó að samningurinn sé okkur hagfelldur.

Það verður að leggja sérstaka áherslu á öfluga hagsmunagæslu á fyrri stigum löggjafarferlis ESB, þegar besta tækifærið gefst til að hafa áhrif á löggjöfina.

Við þurfum að standa vörð um tveggja stoða kerfið sem var og er grundvallarforsenda fyrir EES-samningnum. Þótt vissulega sé svigrúm til að finna sameiginlegar lausnir þá verðum við að halda fast um taumana í þessu efni.
Við þurfum enn frekar að gæta okkar hagsmuna þegar kemur að framlögum til uppbyggingarsjóðs EES en ESB hefur þar gengið á lagið með sífellt auknum kröfum.

Það er einnig okkar markmið að koma á fullri fríverslun með fisk en ESB hefur þráast við að fella niður tolla á tilteknar fiskafurðir.
Við þurfum einnig að gera ríkari kröfu á að innleiðing ESB-gerða sé samræmd á EES-svæðinu, en sterkar vísbendingar eru uppi um að brotalamir séu á efnislegri innleiðingu í ákveðnum ESB-ríkjum.

Með bættri framkvæmd samningsins þá getur Ísland skapað sér betri stöðu til að fá undanþágur eða sértækar aðlaganir á löggjöf ESB þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur sett á oddinn að hrinda í framkvæmd endurbótum á framkvæmd EES-samningsins og við vinnum nú eftir markvissri aðgerðaráætlun.

Góðir gestir.

Utanríkisráðuneytið, í samstarfi við önnur ráðuneyti, hefur unnið markvisst að því að endurbæta framkvæmd EES-samningsins. Áþreifanlegar tillögur í því efni voru settar fram í skýrslu sem ég lagði fram í apríl 2018 og voru þær samþykktar í ríkisstjórn. Ég vil nefna nokkur dæmi um þætti í endurbótastarfinu og árangurinn af þeim:

1) EES-gagngrunnurinn sem við erum að opna almenningi í dag en grunnurinn hefur verið í notkun sem hópvinnutæki stjórnsýslunnar nú um nokkurt skeið. Með þessum bættu vinnubrögðum er innleiðingarhalli Íslands kominn niður í 0.5% samkvæmt nýbirtu frammistöðumati ESA. Þetta er besti árangur Íslands frá upphafi mælinga.

Með opnun gagnagrunnsins gefst tækifæri fyrir okkur öll, stjórnsýsluna, Alþingi og hagsmunaaðila, til að nýta hann sameiginlega til að fylgjast með tillögum að lagasetningu sem gætu síðar haft áhrif á íslenskt samfélag.

Árangur næst best með samhentu átaki okkar allra. EES-gagnagrunnurinn hefur nýst vel til þess til að bæta skilvirkni stjórnsýslunnar í EES-málum. Með opnum hans getum nú unnið enn betur að því að bera kennsl á veigamestu málin sem varða Ísland og móta afstöðu til þeir

2) Í öðru lagi vil ég nefna forgangslista ríkisstjórnarinnar sem nú er samþykktur árlega. Þar eru tilgreind þau mál í lagasetningarferli hjá ESB sem metin eru sem forgangsmál út frá íslenskum hagsmunum. Sérstaklega er fylgst með þeim málum og tryggt að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda sé komið á framfæri. Til að svo megi verða verður auknu fjármagni varið til starfsemi sendiráðs Íslands í Brussel og fulltrúum fagráðuneyta fjölgað þar, til að sinna þessari bráðnauðsynlegu hagsmunagæslu. Þetta er afar brýnt.

Á næstu dögum verða drög að nýjum forgangslista ríkistjórnarinnar 2019 kynnt til leiks. Eins og í fyrra, er mikilvægt að hagsmunaaðilar komi athugasemdum á framfæri, ef með þarf. Þetta fyrirkomulag reyndist vel í fyrra og sýnir hversu mikilvægt er að við vinnum saman að hagsmunum okkar. Forgangslistinn er góð umgjörð um stærstu hagsmunamálin. En við þurfum að gera enn betur.

3) Þriðja dæmið sem mig langar að nefna er þátttaka í nefndastarfi ESB. Við eigum að leggja sérstaka áherslu á öfluga hagsmunagæslu á fyrstu stigum löggjafarferils ESB. Innan ESB starfa meira en 600 nefndir og vinnuhópar sem við eigum rétt á að taka þátt í samkvæmt EES-samningum (fyrir utan fjölda óformlegra hópa). Bróðurparturinn af gerðunum sem við tökum upp í samninginn er meðhöndlaður í þessum nefndum. Unnið er að því að kortleggja þessar nefndir á öllum sviðum EES-samningsins til að skera úr um því hvaða nefndum við þurfum að taka þátt í og hvaða nefndum við getum sleppt.

4) Fjórða og síðasta dæmið um umbætur sem við höfum unnið að er áhersla á að fjölga fulltrúum frá fagráðuneytum í Brussel. Þetta er afar mikilvægur þáttur, bæði til að sinna betur nefndaþátttöku hjá EFTA eða ESB og stofna til sambands við framkvæmdastjórnina, ráðið og Evrópuþingið á hinum ýmsu sviðum. Slíkt gerist ekki á einni nóttu. Það þarf að skapa tengsl og byggja upp traust til lengri tíma.

Góðir fundargestir.

Á tímamótum er gagnlegt að líta um öxl en ekki síður fram á veginn. Við eigum að keppa að því marki að gera enn betur þegar EES-samningurinn er annars vegar; við eigum að horfa gagnrýnum augum á okkar eigin verk og finna leiðir til að tryggja betri framkvæmd samningsins og skoða reglulega kosti og galla aðildar okkar að samningnum.

Af þessari ástæðu ákvað ég í tilefni af skýrslubeiðni á Alþingi sl. vor að skipa starfshóp undir forystu Björns Bjarnasonar til vinna skýrslu um aðild Íslands að EES-samningnum og meta kosti og galla aðildar. Það er von mín að skýrsla starfshópsins lyfti umræðu um EES-samninginn á hærra plan en verið hefur síðustu misseri.

Við skulum hafa í huga að stór hluti íslensku þjóðarinnar þekkir ekki tilveruna án þess að njóta þeirra réttinda sem EES-samningurinn kveður á um. Upplýst umræða um kosti og galla aðildar okkar að samningnum mun vonandi hrinda aðför þeirra ólíku hagsmunaafla sem nú hafa sameinast um að koma EES-samningnum fyrir kattarnef.

Það var mikið gæfuspor á 75 ára afmæli fullveldisins að við skyldum nýta forræði okkar yfir eigin málum til að gera alþjóðasamning á okkar eigin forsendum, sérsniðinn að okkar hagsmunum.

Ég er þess fullviss að málefnaleg og vönduð skoðun á 25 ára reynslu okkar af EES-samninginn mun sýna ótvíræðan ávinning af aðild okkar en jafnframt verða okkur hvatning til að bæta framkvæmd samningsins enn frekar.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira